Sport

Eigendurnir í NFL-deildinni samþykktu að fara í sautján leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn síungii Tom Brady þarf að spila einum leik meira í titilvörninni á næstu leiktíð.
Hinn síungii Tom Brady þarf að spila einum leik meira í titilvörninni á næstu leiktíð. AP/Mark LoMoglio

Eigendur NFL-deildarinnar ættu að fá enn meiri pening í vasann eftir að þeir komu í gegn breytingu um fleiri leiki í deildinni.

Liðin í NFL-deildinni í ameríska fótboltanum munu spila einum leik meira frá og með næsta tímabili eftir að eigendur deildarinnar samþykktu að lengja deildarkeppnina um eina viku.

Á móti fækkar leikjum á undirbúningstímabilinu um einn eða úr fjórum í þrjá.

Samkvæmt síðasta samkomulagi við leikmenn þá höfðu félögin möguleika á því að fjölga úr sextán leikjum í sautján en leikmenn fá samt ekkert meira borgað fyrir að spila einum leik meira.

Sumir leikmenn hafa verið ósáttir við þessa breytingu og stjörnuhlauparinn Alvin Kamara hjá New Orleans Saints kallaði hana meðal annars „heimsku“ á samfélagsmiðlum.

Hvert lið mun samt sem áður fá áfram eina viku í frí inn á tímabilinu. Það þýðir jafnframt að tímabilið lengist um eina viku.

2021 tímabilið hefst fimmtudaginn 9. september og lokaumferðin fer síðan fram 9. janúar 2022. Super Bowl leikurinn á nýja SoFi leikvanginum í Los Angeles átti að fara fram 6. febrúar á næsta ári en fer nú fram 13. febrúar.

Breytingin á NFL-deildinni mun um leið tryggja það að öll lið deildarinnar munu spila leik utan Bandaríkjanna á árunum 2022 til 2030. Það verða skipulagðir leikir í Kanada, Þýskalandi, Mexíkó, Suður-Ameríku og Bretlandi en að minnsta kosti fjórir leikir á tímabili fara fram utan Bandaríkjanna á þessum átta tímabilum.

Undanfarin ár hafa 23 leikir farið fram á Wembley og þá hafa einnig verið spilaðir leikir í Mexíkóborg.

Samningur NFL og Wembley rann út 2020 en í hans stað samdi NFL-deildin við Tottenham Hotspur um að spila tvo leiki á ári á nýja Tottenham leikvanginum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×