Á Instagram-reikningi sínum bregður lögreglan oft á leik og tekur sig ekki of alvarlega. En er hægt að rýna eitthvað frekar í það þegar opinberar valdastofnanir notfæra sér samfélagsmiðla?
Þessa dagana er verið að gefa út þáttaröðina Stofuhiti á streymisveitunni Stöð 2+. Bergur Ebbi Benediktsson er þáttastjórnandi og er þáttunum lýst sem hugmyndaferðalagi um mörk mennsku og tækni.
Í nýjasta þættinum, sem einkum fjallar um áhrif tæknibreytinga á samfélagsgerð okkar, tekur Bergur Ebbi Instagram-reikning lögreglunnar sem dæmi um þróun sem ekki sér fyrir endann á.
Hver setur þessar reglur?
Á samfélagsmiðlum virðast gilda óskráðar reglur sem byggjast á því að notendur skuli þóknast sem flestum, deila sem mestu og almennt „ vera nettir" eins og Bergur Ebbi kemst að orði í þættinum.
„Við erum öll að spila eftir reglum um að vera nett, við missum völdum ef við erum of ströng. En ef löggan þarf líka að spila eftir þessum reglum, hver í ósköpunum er þá að setja okkur þessar reglur? Því vanalega eru þannig að löggan þarf ekki að lúta neinum reglum nema reglum yfirvalda. En nú er það ekki lengur þannig," segir Bergur Ebbi.
Nýr þáttur af Stofuhita kemur út á miðnætti á miðvikudögum. Leikstjóri er Magnús Leifsson. Áskrifendur geta horft á þá á sjónvarpsvef Stöðvar 2.