Innlent

Rauðglóandi hraunið í rökkrinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hraun spýtist upp úr tveimur gígum í Geldingadölum á Reykjanesi.
Hraun spýtist upp úr tveimur gígum í Geldingadölum á Reykjanesi. Vísir/Vilhelm

Færri komust að en vildu til að berja eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesi augum í gærkvöldi. Þeir sem þangað komu fengu að njóta náttúruaflanna og fylgjast með rauðglóandi hrauninu vella upp úr eldkeilunni sem hefur verið að myndast.

Vísa þurfti fólki frá Geldingadölum í gærkvöldi, svo mikil var aðsóknin. Bílaröð teygði sig þá frá yfirfullum bílastæðum við upphaf gönguleiðarinnar, eftir Suðurstrandarvegi, í gegnum Grindavík og áfram út eftir Grindavíkurvegi út af fjallinu Þorbirni.

Engan þarf að undra að svo margir væru þess fýsandi að ganga að gossvæðinu. Í Geldingadölum getur fólk séð glóandi hraun fylla dalina smátt og smátt. Hraunið er sérstaklega tilkomumikið í ljósaskiptunum og í rökkrinu eins og meðfylgjandi myndir Vilhelms Gunnarssonar, ljósmyndara Vísis, frá því í gærkvöldi bera með sér.

Eftir atganginn í gær hefur verið ákveðið að opnað verði fyrir bílaumferð að gossvæðinu klukkan sex á morgnana og lokað fyrir hana aftur klukkan sex síðdegis næstu daga. Fyllist bílastæðin nærri gosstöðvunum aftur gæti verið lokað enn fyrr. 


Tengdar fréttir

Breyttur opnunar­tími að eld­gosinu í Geldinga­dölum: „Við getum ekki vaktað þetta svona lengi“

Ákveðið hefur verið að breyta opnunartíma að gosstöðvunum í Geldingadölum til þess að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti og til þess að auka öryggi þeirra sem gosstöðvarnar sækja. Dæmi eru um að fólk sem beðið hafi í bílum sínum í allt að þrjár klukkustundir eftir að komast inn á svæðið í gær hafi verið snúið frá þegar svæðinu var lokað.

Hleypa ekki fleiri bílum að gossvæðinu

Lokað hefur verið fyrir bílaumferð að gossvæðinu í Geldingadölum. Mikil bílaröð myndaðist síðdegis og náði hún alla leiðina að afleggjaranum að Bláa lóninu á Grindavíkurvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×