„Við erum náttúrulega að senda okkar viðbragð upp eftir. Það voru þarna tíu eða ellefu björgunarsveitarmenn á gossvæðinu þegar þetta gerðist, þegar nýja sprungan opnaðist. Við erum bara að senda auka viðbragð, bæði björgunarsveitarfólk og lögreglu þangað upp eftir,“ segir Sigurður í samtali við fréttastofu.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru einnig sendar á vettvang og fór önnur þeirra með sérsveitarmenn. Þyrlurnar eru komnar á svæðið en voru ekki lentar þegar fréttastofa náði tali af Sigurði, en sérsveitarmenn munu aðstoða við að koma fólki af svæðinu.
Hann segir engan vafa um að fólk gæti verið í hættu.
„Klárlega, við vitum ekkert hvernig sprungan kemur til með að haga sér. Hún gæti teygt sig í báðar áttir en það gæti líka dregið úr þessu. Öryggisins vegna lokum við svæðinu.“
Í fréttinni hér að neðan má fylgjast með nýjustu vendingum er varða sprunguna.