Innlent

Gera ráð fyrir að geta full­bólu­sett 130 þúsund fyrir júní­lok miðað við á­ætlun Pfizer

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bólusetning með bóluefni Pfizer hófst á Íslandi þann 29. desember.
Bólusetning með bóluefni Pfizer hófst á Íslandi þann 29. desember. epa

Bólusetningar gegn Covid-19 ganga vel, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnlæknis, og verða 15 þúsund manns bólusettir í þessari viku. Vegna aukinnar framleiðslugetu Pfizer gera yfirvöld nú ráð fyrir að fullbólusetja 130 þúsund manns fyrir júnílok.

Er þá aðeins gert ráð fyrir bóluefninu frá Pfizer en ekki Moderna, Janssen og AstraZeneca.

Samkvæmt bólusetningaráætlun heilsugæslunnar fyrir þessa viku munu þeir sem fengu fyrri skammt 18. mars fá seinni skammt á morgun og þá verða allir sem fæddir eru 1951 eða fyrr boðaðir í bólusetningu á fimmtudag. 

Viðkomandi verða bólusettir með bóluefninu frá AstraZeneca.

Á föstudaginn verða heilbrigðisstarfsmenn utan stofnana bólusettir með bóluefninu frá Moderna.

Þórólfur sagðist fylgjast vel með þróun mála erlendis hvað varðaði bóluefnið frá AstraZeneca en ef það reyndist rétt að möguleg blóðtappamyndun væri fyrir hendi hjá yngra fólki breytti það ekki áætlunum hérlendis, þar sem bóluefnið væri aðeins gefið eldra fólki.

Ef eitthvað nýtt kæmi fram er varðaði þann aldurshóp yrði það skoðað.

Þórólfur sagðist ekki getað svarað því hvort yngri einstaklingar sem þegar hefðu fengið skammt af AstraZeneca fengju seinni skammtinn eða annað bóluefni.

Spurður sagðist Þórólfur hafa miðað við 50 prósent hvað varðaði hlutfall þjóðarinnar sem þyrfti að bólusetja áður en hægt yrði að slaka á aðgerðum en ítrekaði að það væri þó einnig háð öðrum þáttum, svo sem stöðunni erlendis og útbreiðslu nýrra afbrigða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×