Dennis Rodman er einn skrautlegasti karakter sem hefur spilað í NBA-deildinni og þó hann fyrir löngu lagt skóna á hilluna þá kemst dóttir hans vart hjá því að ræða föður sinn reglulega er hún mætir í viðtöl. Ástæðan fyrir viðtölunum er sú að Trinity Rodman er með efnilegustu leikmönnum Bandaríkjanna í fótbolta.
Aðeins 18 ára gömul var hún valin númer tvö í nýliðavali bandarísku atvinnumannadeildinni í fótbolta. Mun hún spila fyrir Washington Spirtis á komandi tímabili.
Venjan er að leikmenn á hennar aldri fari í háskóla og þremur til fjórum árum seinna skrá þær sig í nýliðavalið. Trinity ákvað hins vegar að fara beint í atvinnumennsku.
Trinity var ítarlegu viðtali á The Guardian þar sem hún fór yfir víðan öll. Til að mynda pressuna sem fylgir því að vera yngsti leikmaður sögunnar til að vera valinn í nýliðavali NWSL-deildarinnar og svo að bera eftirnafnið Rodman.
„Að alast upp með eftirnafnið Rodman gaf mér meira heldur en það tók frá mér. Hugarfar mitt var þannig að ég vildi sýna fólki hvað ég gæti gert. Ég held að ég sé ákveðnari einstaklingur í dag út af því.“
Í viðtalinu ræðir hún einnig hvernig það er aldrei spurt út í móður hennar, Michelle, þar sem pabbi hennar er heimsfrægur fyrrverandi körfuboltamaður og er reglulega í fréttum.
„Að eiga föður eins og ég á þá spyr mig enginn út í móður mína því hún er augljóslega ekki fræg NBA-stjarna. Ég vil samt að fólk viti að mamma mín hefur alltaf verið til staðar fyrir mig í lífinu, hún er besti vinur minn og algjör klettur í mínu lífi. Ég held að fólki viti ekki hversu nánar við erum.“
„Þó mamma hafi ekki verið í NBA þá er hún mjög ákveðin, hefur gríðarlegt keppnisskap og er mjög sterk. Hún er fyrirmyndin mín.“
NWSL-deildin [National Women´s Soccer League] hefst 21. maí og verður það vel þess virði að fylgjast með hinni ungu Trinity Rodman. Ekki vegna þess hver faðir hennar er heldur vegna þess að hún gæti orðið ein skærasta stjarna knattspyrnunnar á komandi árum.