„Nú þegar búið er að bólusetja 70 ára og eldri má ekki opna sundlaugar fyrir okkur? Algerlega lífsnauðsynlegt fyrir heilsuvernd eldri borgara, sem stunda sund þúsundum saman,“ segir Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsmaður á Facebook-síðu sinni.
Hann á bágt með að skilja það af hverju gamlingjunum er haldið frá klórnum í laugunum. Og Þórunn segir þetta góða hugmynd hjá Ingva Hrafni.
„Það eru að koma fram núna allskonar tillögur út af þessum hópi sem er búin að fá bólusetningar,“ segir Þórunn í samtali við Vísi. Hún segir að meginþorri yfir sjötugt sé búinn að fá aðra sprautuna eða báðar og á Akureyri eru menn byrjaðir að bólusetja niður í 68 ára aldur.
Ekki búið að bólusetja alla sem eru yfir sjötugu
„En ef þú ert með AstraZeneka eru þrír mánuðir á milli fyrri sprautu og þeirrar seinni. Það er að tefja að ekki eru allir staddir á sama stað. Það myndi algjörlega rugla þennan hóp; af hverju hinir mega fara en ekki ég?“
Þórunn segir að enn séu ekki allir yfir sjötugt búnir að fá báðar sprauturnar. Þeir sem fá Pfiser og Moderna séu búnir en ekki þeir sem fá AstraZeneca.
„Og er því ekki komið með fullt ónæmi. Ef við værum öll í sama pakka og öll bólusett fer að koma upp sú staða,“ segir Þórunn.
Ingvi Hrafn aðeins of snöggur til með sína góðu hugmynd
Hún segir jafnframt að nú þurfi að snúa einu og öðru í gang svo sem mörgum aðalfundum í félögum eldri borgara sem hafa frestast. Þórunn gerir ráð fyrir því að helft eldri borgara verði að fullu bólusett í lok maí.
„Ingvi Hrafn er aðeins of snöggur út af því að bólefnin eru með þessa hegðun að vera ekki eins. En hugmyndin er góð, þekkja allir þessa vanlíðan að komast ekki í hreyfingu.“
Þegar Vísir náði tali af Þórunni var hún á fjarfundi þar sem verið var að kynna viðamikla skýrslu, rannsókn sem félagsvísindastofnun gerir og heitir Hagir og líðan eldri borgara. Greinilegt sé að heilsan sé lakari en fyrir fjórum árum og Þórunn segir að það megi rekja beint til Covid-19 og einangrunar sem henni fylgir.