Foreldrar barna sem tékknesk yfirvöld synjuðu um vistun á leikskóla vegna þess að þau voru ekki bólusett höfðuðu málið fyrir Mannréttindadómstólnum. Sumir þeirra voru sektaðir fyrir að bólusetja ekki börn sín. Upphaf allra málanna var fyrir kórónuveirufaraldurinn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Tékknesk lög skylda foreldra til þess að bólusetja börn sín fyrir hefðbundnum smitsjúkdómum nema það sé ekki hægt af heilsufarsástæðum. Ekki má þó bólusetja börn gegn vilja foreldra og þá er ekki hægt að neita óbólusettum börnum um grunnskólavist.
Fleiri Evrópuríki hafa tekið upp strangari kröfur um bólusetningu barna undanfarin ár. Í Þýskalandi liggur nú sekt við því ef foreldrar láta ekki bólusetja börn sín gegn mislingum. Í Frakklandi og Ítalíu hefur einnig verið gripið til harðari aðgerða eftir mislingafaraldra þar.
Í einu tékknesku málanna sem fóru fyrir Mannréttindadómstólinn neituðu foreldrar að leyfa dóttur sinni að fá svonefnt MMR-bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Upplýsingafals um meint tengsl bólefnisins við einhverfu í börnum hefur gengið um kreðsur andstæðinga bólusetninga um árabil þrátt fyrir að vafasöm rannsókn sem átti að sýna þau tengsl hafi verið marghrakin.