Skoðun

Er sjálfs­á­byrgð á ís­lenskum konum?

Erna Bjarnadóttir, Jóna Dóra Karlsdóttir, Margrét Hildur Ríkharðsdóttir og Una María Óskarsdóttir skrifa

Undanfarnar vikur hefur mikið verið fjallað um breytt fyrirkomulag á skimun fyrir leghálskrabbameini meðal íslenskra kvenna. Enginn þarf að velkjast í vafa um að einhver misbrestur hefur orðið í undirbúningi og innleiðingu á nýju fyrirkomulagi. Viðbrögð þeirra stjórnvalda sem í hlut eiga eru ýmist að drepa málinu á dreif, fullyrða að um óþarfa ótta sé að ræða, svara ekki bréfum eða svara þeim seint, nú eða vísa vandanum á Covid-19 sjúkdóminn.

Það vakti athygli okkar að lesa í grein Arnars Þórs Jónssonar í Morgunblaðinu þar sem hann minnti á að ýmsir öryggishemlar lýðræðis og borgaralegs frelsis hafa slaknað á tímum Covid-19: Sem dæmi nefndi hann að aðgerðir stjórnvalda vegna kórónaveirunnar hafa stórlega hamlað öllu félagsstarfi og þar með veikt borgaralegt aðhald gagnvart miðstýrðu valdi. Svo segir: „Niðurstaðan af öllu þessu er sú að lamandi hönd hefur verið lögð á lýðræðislega virkni borgaranna. Sagan sýnir að þegar frjáls félagasamtök veikjast verður auðveldara fyrir fulltrúa ríkisvalds (og þeirra sem tala sem málsvarar siðferðilegs meirihluta) að beita borgarana kúgun og ofríki með tilheyrandi skerðingu frelsis og réttinda.“

Já, það er vandasamt að ætla að boða til kröfugöngu eða hvers kyns mótmæla til að vekja athygli á málum sem varða heill almennings. Hér er ég aftur að vísa til þess málefnis sem vikið var að í upphafi. Til að bregðast við var hins vegar stofnaður hópur á samfélagsmiðlinum Facebook undir nafninu „Aðför að heilsu kvenna“. Staðan nú í fyrstu viku apríl 2021 er sú að konur bíða enn niðurstöðu úr greiningu á sýnum sem tekin voru eftir að endurtaka þurfti sýnatöku vegna klúðurs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við að taka við þessu verkefni. Nokkrar sannar örsögur úr hversdagnum lýsa þessu ástandi nánar.

Kona fór í skimun 27. nóvember 2020, hefur greinst þrisvar með krabbamein. Endurtaka þurfti sýnatöku 3. mars 2021. Sýnið virðist hafa týnst eða eins og viðkomandi segir „Fannst loksins“ og var enn á Íslandi í byrjun apríl. Því er enn engin niðurstaða komin. Jæja hver vill vera í svona sporum!

Kona fór í skimun í nóvember 2020, saga um keiluskurð, endurtekin sýnataka í byrjun mars 2021, engin niðurstaða ennþá.

Kona fór í skimun í janúar 2021. Símtal frá heilsugæslunni 31. mars sl., korter í páska, greind með frumubreytingar og sagt að kvennadeild LSH myndi hafa samband. Hringir sjálf að morgni 6. apríl sl. og þá hafði ekki borist þangað beiðni frá lækni á heilsugæslunni. Þurfti að beita hörku til að fá tíma strax 9. apríl nk., annars löng bið.

Saga margra er lík þessari: „Ég er búin að bíða í ca 3 vikur, en beið upp undir 4 mánuði eftir niðurstöðum úr fyrri skimun og greindist með veiruna, þarf víst að skoða betur. Mjög stressandi.“

Konum er ýmist sagt að þær fái upplýsingar um niðurstöðu skimunar inni á island.is eða heilsuvera.is. Í fyrsta lagi kennið starfsfólki hver eru réttu svörin en svo kærum við okkur ekkert um svör þarna. Fjöldi fólks er ekki með rafræn skilríki sem dæmi. Við viljum upphringingu eða vinsamlegt bréf með niðurstöðu og réttum leiðbeiningum um næstu skref. Enn eru engin svör komin við skimunarsýnum sem tekin hafa verið á þessu ári.

Sögurnar eru enn fleiri og okkur svíður að lesa eða hlusta á hverja og eina þeirra og erum sumar sjálfar í þessum hópi. Nú í byrjun apríl eru konur svo enn að spyrja í hópnum „Aðför að heilsu kvenna“ hvar þær komist í leghálsspeglun, hvar sé hægt að panta tíma, hvar sé styst bið? Afsakið, en hvert er hlutverk þeirra sem tóku við þessu verkefni og leyfðu sér þar að auki að tala um óþarfa ótta meðal kvenna. Á þetta kannske að vera einhverskonar jafningjafræðsla?

Í því fyrirkomulagi sem var við lýði fram til síðustu áramóta var með bréfi gefið upp símanúmer hjá Krabbameinsfélagi Íslands eða Sjúkrahúsinu á Akureyri og gengið frá tíma í framhaldinu. Ekkert vesen! Það kann að vera að það sé ekki dagaspursmál að fá niðurstöðu um hvort frumubreytingar séu til staðar en öll bið og óvissa vikum og mánuðum saman veldur konum kvíða og áhyggjum. Þetta varðar fjölskyldur þeirra og þar með okkur öll.

Í fullri einlægni: Hæstvirtur heilbrigðisráðherra, Landlæknir og framkvæmdastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Er þetta í fullri alvöru ykkar besta boð ykkar til íslenskra kvenna og fjölskyldna þeirra rétt fyrir sumarmál vorið 2021? Fyrir mánuði áttum við fund um þetta mál með heilbrigðisráðherra og afhentum 5.440 undirskriftir undir áskorun vegna málsins. Hættið nú að hundsa bréf okkar, viðvaranir okkar og fagfélaga lækna, sem og raddir kvenna og karla sem hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum. Gangið nú hreint til verks og vindið ofan af þessu óefni sem málið er komið í.

Erna Bjarnadóttir, Jóna Dóra Karlsdóttir, Margrét Hildur Ríkharðsdóttir og Una María Óskarsdóttir




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×