Tíu leikmenn nýliðanna lögðu toppliðið að velli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dallas nýbúinn að loka toppliðinu
Dallas nýbúinn að loka toppliðinu vísir/Getty

Leeds United gerði sér lítið fyrir og skellti toppliði Manchester City í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. 

Pep Guardiola hóf leik með leikmenn á borð við Kevin De Bruyne, Ruben Dias og Rodri á varamannabekknum enda mikið álag á leikmönnum liðsins þessa dagana.

Stuart Dallas sá til þess að Leeds færi með eins marks forystu í leikhléið því hann skoraði fyrsta mark leiksins á 42.mínútu.

Skömmu síðar urðu gestirnir fyrir áfalli þegar Liam Cooper, fyrirliði Leeds, fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot sem var skoðað af VAR í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Einum færri lögðust gestirnir í skotgrafir í síðari hálfleik en Ferran Torres náði að jafna metin fyrir Man City á 76.mínútu og bjuggust flestir við að heimamenn myndu ná inn sigurmarki á lokamínútunum.

Það varð svo sannarlega ekki raunin því Dallas skoraði annað mark sitt og tryggði nýliðunum glæstan sigur með marki í uppbótartíma. Lokatölur 1-2 fyrir Leeds.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira