Í samtali við fréttastofu segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica sem sér um dreifingu bóluefna hérlendis, að sendingin sé í samræmi við áætlanir. Þá séu 2.400 skammtar til viðbótar við þá 2.400 sem afhenda á í þessari viku, væntanlegir 26. apríl næstkomandi.
Aðeins þarf einn skammt af bóluefni Janssen til að veita vörn gegn Covid-19 sem er ólíkt því sem á við um önnur bóluefni.

Þá er von á níu þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer, sem duga fyrir 4.500 manns, á morgun. Til viðbótar er von á ótilgreindum fjölda skammta af bóluefni AstraZeneca, en Júlía Rós segir að skammtafjöldi í hverri sendingu frá fyrirtækinu hafi verið í kring um 2.400.
Samkvæmt bólusetningarvef Almannavarna og Landlæknis, sem síðast var uppfærður á föstudag, hafa 58.567 einstaklingar fengið minnst einn skammt af bóluefni við Covid-19. Þá hafa 27.801 verið fullbólusettir en bólusetning er hafin hjá 30.766 manns.
Hér að neðan gefur svo að líta sérstakt bólusetningardagatal stjórnvalda.