Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, segist ekki vita til þess að viðræðubeiðni hafi borist frá Úkraínu.
Rússar hafa sent fjölmarga hermenn að landamærum Úkraínu á undanförnum vikum. Talsmaður Selenskís segir um 40 þúsund rússneska hermenn við landamæri ríkjanna í austri og að Rússar hafi sömuleiðis sent um 40 þúsund hermenn til Krímskaga, samkvæmt frétt Reuters.
Í Rússlandi saka ráðamenn þó yfirvöld í Kænugarði um að valda spennu á svæðinu.
Hér má sjá sjónvarpsfrétt Sky News sem sendi fréttamenn til að kanna aukin viðbúnað Rússa á svæðinu.
Rússar gerðu árið 2014 innrás í Úkraínu og innlimuðu Krímskaga. Lengi vel þrættu ráðamenn í Rússlandi fyrir að rússneskir hermenn hefðu ráðist á Krímskaga en Pútín viðurkenndi það þegar yfirráð Rússa þar voru tryggð.
Sjá einnig: Sagður hafa misst stjórn á sér og hótað að eyða her Úkraínu
Þá hafa Rússar staðið þétt við bakið á aðskilnaðarsinnum í Donbass í austurhluta Úkraínu og útvegað þeim meðal annars vopn og menn. Rússneskir hermenn hafa barist fyrir aðskilnaðarsinna en ráðamenn í Rússlandi segja þá hermenn hafa verið í fríi.
Frá því átökin hófust hafa um fjórtán þúsund manns fallið þeirra vegna, samkvæmt yfirvöldum í Kænugarði. Nú síðast féll úkraínskur hermaður í gær og segja Úkraínumenn að hann hafi fallið þegar aðskilnaðarsinnar vörpuðu sprengjum á hermenn.
Úkraínumenn segja 27 hermenn hafa fallið í árásum aðskilnaðarsinna á þessu ári.
Segja Úkraínumönnum um að kenna
Peskov sagði í dag að Pútín vonaðist til þess að Úkraínumenn dragi úr viðbúnaði þeirra á landamærunum og þannig væri hægt að draga úr spennunni.
Rússar hafa sakað Úkraínumenn um „hættulegar“ aðgerðir í Donbass og í sama mund segja þeir að þeim sé frjálst að færa hermenn innan eigin landamæra.
Vestrænir bandamenn Úkraínu hafa sakað ríkisstjórn Pútíns um að reyna að skapa krísu, sem er í takt við ummæli ráðamanna í Úkraínu sem segjast óttast að Pútín ætli sér að stappa stálinu í Rússa í aðdraganda þingkosninga í haust með því að gera óvin úr Úkraínu.
Bandaríkjamenn hafa heitið því að standa við bakið á Úkraínu. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gær að aðgerðir Rússa muni hafa afleiðingar.
Hann er nú á leið til Brussel þar sem hann mun meðal annars ræða við Evrópumenn um ástandið í Úkraínu og Rússlandi.