Innlent

Ógnaði starfs­fólki Domino's þegar hann fékk ekki að borga með reiðu­fé

Eiður Þór Árnason skrifar
Atvikið átti sér stað í verslun Domino's við Skúlagötu.
Atvikið átti sér stað í verslun Domino's við Skúlagötu. Vísir/vilhelm

Lögregla var kölluð að útibúi Domino‘s í Skúlagötu í kvöld þegar óánægður viðskiptavinur ógnaði starfsfólki staðarins. Var sá ósáttur við að fá ekki að greiða fyrir pöntun sína með reiðufé en skyndibitakeðjan hefur ekki tekið við peningum af sóttvarnaástæðum eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst.

„Hann brást svona illa við og var ekki beint kurteis. Samt sem áður brást starfsfólkið okkar gríðarlega vel við og hringdi á lögregluna,“ segir Ás­mundur Atla­son, markaðsfulltrúi hjá Domino‘s, í samtali við Vísi. 

Fréttablaðið sagði fyrst frá atvikinu og greinir frá því að viðskiptavinir hafi séð manninn með skæri þegar hann kom út af staðnum. Ásmundur segir að þeir starfsmenn hann hafi rætt við hafi ekki orðið varir við slíkt.

„Þetta var afgreitt fljótt og örugglega og það sem skiptir mestu máli í þessu er að það slasaðist enginn. Lögreglan er þarna rétt hjá svo hún var fljót að bregðast við og koma sér á vettvang.“

Ekki liggur fyrir hvort málið hafi endað með handtöku. Ásmundur segir að eftir atvikið hafi starfsfólk haldið áfram að anna hungri landans á annasömu þriðjudagskvöldi eins og ekkert hafi í skorist.

Aðspurður um hvort það hafi borið á frekari óánægju meðal viðskiptavina með ákvörðun Domino‘s að hætta tímabundið að taka við reiðufé segir hann svo vera.

„En það sem skiptir okkur mestu máli er að gæta að sem bestum sóttvörnunum og tryggja að það sé öruggt að versla við okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×