Viðskipti innlent

Ekkert sem bannar fyrir­tækjum að taka ekki við reiðu­fé

Eiður Þór Árnason skrifar
Einhverjir hafa átt erfiðara með að nýta peningana sína eftir að faraldurinn skall á.
Einhverjir hafa átt erfiðara með að nýta peningana sína eftir að faraldurinn skall á. Getty

Ekkert bannar seljanda vöru og þjónustu að neita því að taka við reiðufé og krefjast þess að greiðsla sé innt af hendi með rafrænum hætti að sögn Seðlabanka Íslands.

Fjölmörg fyrirtæki hafa gripið til þess ráðs að hætta tímabundið að taka við reiðufé af sóttvarnaástæðum frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Sitt sýnist hverjum um framtakið og hafa sumir álitið að slík aðgerð sé ólögleg. 

Þar er einkum vísað til laga um gjaldmiðil Íslands sem kveða meðal annars á um að peningaseðlar og mynt sem Seðlabanki Íslands láti gera og gefi út séu lögeyrir í allar greiðslur hér á landi.

Í svari Seðlabankans við fyrirspurn Vísis kemur fram að staða gjaldmiðilsins sem lögeyris merki að hann skuli vera endanlegur verðmælir, það er mælikvarði á verð, í viðskiptum aðila. Var þetta ekki síst mikilvægt á árum áður þegar hinir ýmsu gjaldmiðlar voru notaðir hér á landi og jafnvel einstaka bankar gáfu út sína eigin peningaseðla.

„Hins vegar er ekkert sem bannar seljanda vöru og þjónustu að krefjast þess að greiðsla sé innt af hendi með tilteknum hætti, hvort sem sú krafa er að einungis sé greitt með reiðufé eða rafrænum hætti,“ segir í svari bankans.

Þó sé það talið sanngjarnt að seljandi upplýsi viðskiptavini um slíkar ráðstafanir með skýrum og augljósum hætti. Það sé til að mynda gert með því að semja um eða gefa út fyrirfram hvaða greiðslufyrirkomulag hann vill viðhafa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×