Forgangshópnum með undirliggjandi sjúkdóma er skipt upp í hvorki meira né minna en 30 ólíkar deildir, allt eftir aldri og alvarleika sjúkdómsins.
Fyrstir til að fá bólusetningu voru þeir sem voru 65 ára og eldri og með alvarlega sjúkdóma, sem eru raunar langt frá því að vera undirliggjandi í sumum tilvikum, svo sem krabbamein.
„Þetta er flókið,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, um skipulagninguna þessa dagana.
„Inn í þetta kemur líka ófyrirsjáanleikinn með bóluefnin. Það er alltaf verið að breyta hvaða bóluefni þykja best fyrir hvern hóp, þannig að þetta eru alls konar beygjur, bæði u-beygjur og 90 gráður. En við reynum bara alltaf að fylgja sóttvarnalækni í þessu,“ segir Ragnheiður.

Bólusetningum lokið hjá heilbrigðisstarfsfólki
Rætt var um það í síðustu viku að fjöldi heilbrigðisstarfsfólks hefur þegið bólusetningu þrátt fyrir að starfa utan stofnana og sinna ekki sjúklingum. Það fólk var á undan fólki í röðinni sem glímir við undirliggjandi sjúkdóma. Nú hefur hins vegar verið lokið við bólusetningar hjá heilbrigðisstarfsfólkinu.
Undirflokkar undirliggjandi sjúkdóma eru sex hjá fólki eldra en 65 ára en 24 hjá þeim sem eru 64 og yngri. Notast er við sjúkraskrá og innlagnaskrá til að boða þennan samtals 54.000 manna hóp og byggt var á gagnagrunnum embættis landlæknis með leyfi Persónuverndar.
Á lista Landlæknis sem sjá má hér að neðan kemur meðal annars fram að litið er til þátta sem geta dregið úr getu fólks til að forðast sýkingu af völdum Covid-19, eins og geðraskana og heilabilunar.
Á höfuðborgarsvæðinu verða um 10.000 bólusettir í næstu viku með Pfizer og Moderna. Gert er ráð fyrir að um 200.000 Íslendingar geti verið búnir að fá bólusetningu í júní eða júlí.
Undirliggjandi sjúkdómar eru eins mismunandi og þeir eru margir. Samkvæmt upplýsingum frá embætti Landlæknis er litið til eftirfarandi þátta.
»Krabbameinsmeðferð undanfarin 2 ár (öll illkynja krabbamein)
»Ónæmisbælandi sjúkdómar og meðfæddir ónæmisgallar (t.d. beinmergsbilun, HIV-sýking)
»Ónæmisbælandi meðferð önnur en krabbameinsmeðferð (t.d. ónæmisbæling eftir líffæraígræðslu, líftæknilyf við ýmsum sjúkdómum)
»Hjartasjúkdómar, meðfæddir og áunnir (meðfæddir blámahjartagallar, hjartabilun, kransæðasjúkdómar)
»Lungnasjúkdómar, áunnir og meðfæddir (langvinn lungnateppa)
»Nýrnabilun (einstaklingar á skilunarmeðferð, aðrir með langvinna nýrnabilun)
»Taugasjúkdómar, meðfæddir og áunnir, sem hafa áhrif á öndun (t.d. mænusigg, SMA, MND og sambærilegir sjúkdómar)
»Meðfæddir sjúkdómar sem hafa áhrif á mörg líkamskerfi (slímseigjusjúkdómur, Downs-heilkenni, Fabry-sjúkdómur)
»Aðrir þættir sem auka hættu á alvarlegri COVID-19 sýkingu eða dregur úr getu einstaklings til að forðast smit (sykursýki, offita og kæfisvefn, háþrýstingur, heilabilun, geðraskanir)