Gosið í Geldingadal hefur vakið heimsathygli og hafa myndir og myndbönd glatt fólk í krókum og kimum heimsálfanna sjö. Eitt myndband hefur eflaust borið hróður gossins hvað mest , myndbandið sem Björn gerði með því að fljúga dróna í gegnum gíginn daginn eftir að gosið hófst. Þess vegna hafa Björn Steinbekk og visir.is tekið höndum saman og ætla að færa Íslendingum og heimsbyggðinni allri eldgosið í Geldingadal í beinu streymi, úr drónum, í fjórtán klukkustundir.
Allt að sex drónar á lofti í einu
Streymið er ein flóknasta tækniaðgerð sem framkvæmd hefur verið í óbyggðum hér á landi því ekki verður notast við einn eða tvo dróna við streymið heldur verða að jafnaði 5 til 6 drónar á lofti í einu til þess að færa fólki hið sí- og margbreytilega landslag gosstöðvanna á sem bestan hátt í dagsbirtu og næturhúmi. Færa má rök fyrir því að viðburður sem þessi hafi ekki verið reyndur áður.
Að auki verða streymin tvö. Eitt sérstaklega gert fyrir Ísland með íslenskum stjórnendum og sýnt á Vísi og Stöð 2 Vísi og síðan mun Björn vera umsjónarmaður streymis sem sýnt verður um allan heim á YouTube og öllum viðtölum og fróðleik komið á framfæri á ensku.

Íslensk náttúra og íslensk tónlist
Þó útsendingin sé fjórtán klukkustundir þá verða viðtöl við áhugavert fólk frá öllum hliðum mannlífsins á meðan drónarnir sveima um og enn fremur verður breytingin á landslagi Geldingadals sýnd með myndefni sem Björn hefur tekið upp frá upphafi gossins fram til dagsins í dag. Íslenskri tónlist verður gert hátt undir höfði því fátt passar betur saman en íslensk náttúra og íslensk tónlist.

Tækifæri til að styrkja Landsbjörg
Viðburður sem þessi er vel til þess fallinn að leggja góðu málefni lið og það er bæði Vísi og Birni Steinbekk mikil ánægja að geta tilkynnt að áhorfendum mun standa til boða að styrkja Landsbjörg á meðan útsendingin fer fram en án þess þrotlausa starfs karla og kvenna í björgunarsveitum landsins væri ekki hægt að gera eldgosið í Geldingadölum aðgengilegt almenningi.

Tæknifólk dvelur hátt í sólarhring á fjallinu
Sex tæknimenn frá Skjáskoti munu tryggja að allt fari vel fram ásamt dagskrárgerðarfólki og gesta drónaflugkonum og -mönnum. Í raun má segja að heilu útsendingastúdíói verði komið fyrir á svæðinu og má búast við að starfsmenn og aðstandendur verkefnisins muni dvelja hátt í sólarhring á Fagradalsfjalli.
Til að fylgjast með undirbúningi og skoða magnað myndefni er best að fylgja Birni á Instagram.