Innlent

Veiran mallað í samfélaginu: Sá sem braut sóttkví kom til landsins fyrir rúmum tveimur vikum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Víðir Reynisson hefur áhyggjur af stöðunni.
Víðir Reynisson hefur áhyggjur af stöðunni. Vilhelm Gunnarsson

Kórónuveirusmit sem greindist á leikskólanum Jörfa á föstudagskvöld má rekja til sóttkvíarbrots á landamærum um mánaðamótin. Yfirlögregluþjónn segir að flestir sem brjóti sóttkví séu búsettir á Íslandi en með erlent ríkisfang. Þrettán greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, átta utan sóttkvíar.

Flest smitin tengjast leikskólanum Jörfa í Reykjavík. Fyrst greindist starfsmaður með veiruna á föstudag. Í dag kom í ljós að sá virðist hafa smitast af öðrum starfsmanni á leikskólanum, sem mætti með einkenni til vinnu fyrr í vikunni en greindist ekki fyrr en í gær. Smitið er rakið til sóttkvíarbrots á landamærunum en sá sem braut sóttkví er ekki starfsmaður á leikskólanum. 

Svaraði ekki símanum

„Þetta er breska afbrigðið og viðkomandi svaraði ekki í síma þegar við hringdum og náðum ekki í hann þannig og þá var farið í nánari skoðun sem leiddi til lögregluafskipta og þetta tók dálítinn tíma að ná utan um þetta, að finna viðkomandi og síðan fór hann á sóttkvíarhúsið í framhaldi ,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.

Sá sem braut sóttkví kom til landsins fyrir rúmum tveimur vikum.

„Áhyggjuefnið er það hversu lengi þetta er búið að grassera og hversu lengi fólk er búið að vera á ferðinni sem er með einkenni.“

Erfitt að ná utan um hópsýkingu með langan hala

Víðir segir að smitrakning gangi vel og segir hann flest smitin tengd sóttkvíarbrotinu.

„En við erum enn og aftur að sjá tengingar sem eru á milli ótengdra aðila sem eiga það eina sameiginlegt að hafa verið á sama stað í smá tíma,“ sagði Víðir.

Hann brýnir fyrir fólki að fara í sýnatöku við minnstu einkenni. 

„Það er rosalega erfitt að ná utan um svona hópsýkingu sem á svona langa hala eins og við erum að horfa á núna.“

Þá séu flestir sem brjóta sóttkví búsettir á Íslandi.

„Þeir eru reyndar flest allir með erlent ríkisfang.“

Móðir fimm ára drengs sem smitaðist af veirunni á leikskólanum segir nokkra reiði ríkja meðal foreldra eftir að í ljós koma að smitið megi rekja til sóttkvíarbrots. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra var spurð í Víglínunni í dag hvort ítrekuð dæmi um sóttkvíarbrot væru ekki tilefni til að endurskoða reglur á landamærum.

„Það er verið að hringja í fólk. Það er verið að kanna sérstaklega hverjar aðstæður fólks eru til sóttkvíar þannig þetta erum við allt að gera þannig við væntum þess að það muni skila árangri,“ sagði Katrín.

Víðir segir að þetta herta eftirlit hefði ekki komið í veg fyrir stöðuna sem nú er uppi, enda svaraði viðkomandi ekki í síma þegar reynt var að ná í hann. Tillaga sóttvarnalæknis um að skikka fólk á sóttkvíarhótel við komuna til landsins væri árangursríkust.

Tvær leiðir í boði og boltinn í höndum stjórnvalda

Finnst þér að það þurfi að gera? Að reyna að renna lagastoð undir það að skikka megi fólk á sóttkvíarhótel fyrst það er árangursríkast? 

„Þetta er bara spurning hvað menn vilja gera. Hvaða leið Ísland vill fara í málinu? Hvort við ætlum að þreyja þetta svona eins og við höfum gert. Takast á við svona hópsýkingar sem koma upp og reyna að spila spilum okkar eftir því eða fara þá leið sem var sett með reglugerðinni sem héraðsdómur dæmdi ólögmæta. Menn hafa þessar tvær leiðir í sjálfu sér,“ sagði Víðir.

„Samfélagsleg áhrif þess þegar við erum með mörg hundruð manns í sóttkví og vitum ekki hvernig við endum með þetta mál að maður spyr sig, hvað viljum við gera? Þetta snýr svolítið að stefnumarkandi áhrifum stjórnvalda í þessu. Hvað menn vilja ganga langt. Hvort menn vilja fara svona einhverja millileið eða hvort menn vilja ganga harðari leið fram. Ef menn vilja fara harðari leið er alveg ljóst að Alþingi þarf að koma að þeim málum og það er eitthvað sem er utan við það sem við erum að fást við en ráðleggingar Þórólfs eru nokkuð skýrar finnst mér.“


Tengdar fréttir

Býst við fjölgun í sóttkví: „Þetta er bakslag“

Þrettán greindust með kórónuveiruna í gær og voru átta utan sóttkvíar. Víðir Reynisson segir að um bakslag sé að ræða. Ekki séu öll kurl komin til grafar og býst hann við að þeim fjölgi sem þurfa í sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×