Fótbolti

Ríkis­stjórn Bret­lands mun skoða alla mögu­leika til að koma í veg fyrir ofur­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var skýr í afstöðu sinni gagnvart ofurdeild Evrópu.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var skýr í afstöðu sinni gagnvart ofurdeild Evrópu. Heathcliff O'Malley/Getty Images

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að ríkisstjórn landsins skoði allar mögulegar leiðir til að koma í veg fyrir stofnun ofurdeildar Evrópu í knattspyrnu. Ef fara þarf með málið fyrir dómstóla þá verður það gert.

Johnson fundaði með forráðamönnum ensku úrvalsdeildarinnar, enska knattspyrnu-sambandsins og forráðamönnum ECA, sambandi knattspyrnufélaga í Evrópu, nú í morgun. Hann styður samböndin heilshugar í baráttu þeirra við stofnun ofurdeildar Evrópu.

Í yfirlýsingu frá embætti forsætisráðherrans segir að hann „muni ekki standa hjá og fylgjast meðan örlítill minnihluti eigenda stofni sína eigin litlu lokuðu búð.“

Forsætisráðherrann sagði það einnig skýrt að engar aðgerðir hefðu verið slegnar af borðinu og að ríkisstjórn Bretlands væri tilbúin að skoða alla þá möguleika sem myndu koma í veg fyrir að ofurdeild Evrópu yrði sett á laggirnar.

Ef fara þarf með málið fyrir dómstóla þá verði það gert þegar þar að kemur.

BBC greindi frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×