Darmian skaut Inter nær titlinum

Matteo Darmian var hetja Inter.
Matteo Darmian var hetja Inter. Getty Images/Marco Luzzani

Inter frá Mílanó er komið langt með að tryggja sér ítalska meistaratitilinn eftir 1-0 sigur á Hellas Verona í ítölsku A-deildinni í dag. Vandræði Juventus halda þó áfram.

Inter-liðið hefur oft leikið betur en í dag þar sem vel getur hugsast að stress hafi spilað inn í. Leikur liðanna var jafn frá upphafi en að lokum var það mark Matteo Darmian, fyrrum leikmanns Manchester United, um stundarfjórðungi fyrir leikslok sem skipti sköpum.

Inter er eftir sigurinn með 79 stig á toppi deildarinnar, 13 stigum meira en AC Milan sem á leik inni. Inter á fimm leiki eftir í deildinni en AC Milan sex.

Á sama tíma fór fram leikur Fiorentina og Juventus. Heimamenn frá Flórens voru þar töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 1-0 í hléi eftir mark Dusans Vlahovic úr vítaspyrnu.

Eftir að hafa átt aðeins eina marktilraun í fyrri hálfleiknum náði Juventus að jafna þegar minna en mínúta var liðin af síðari hálfleik. Þar var að verki Alvaro Morata sem smurði boltann fallega upp í vinstra hornið frá vítateigshorninu hægra megin.

Juventus gat ekki fylgt þeirri sterku byrjun eftir og 1-1 urðu úrslit leiksins. Juventus er þá með 66 stig í þriðja sæti, en bæði Atalanta og Napoli geta farið upp fyrir meistarana með sigri í leikjum sem þau eiga inni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira