Umfjöllun og viðtöl: Valur – Þór Ak. 99-68 | Sjötti sigur Vals í röð Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 25. apríl 2021 22:39 Jón Arnór Stefánsson fór mikinn í seinni hálfleik gegn Þór. Vísir/Hulda Margrét Valur vann sinn sjötta sigur í röð þegar liðið lagði Þór Ak. að velli, 99-68, á Hlíðarenda í Domino‘s deild karla í kvöld. Með sigrinum komust Valsmenn upp í 4. sæti deildarinnar. Þórsarar eru í 8. sætinu og í mikilli baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Þór hefur tapað báðum leikjum sínum eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins með samtals 83 stigum. Gríðarlega öflug vörn og sterk liðsheild skilaði Val sigrinum í kvöld. Þór skoraði 29 stig í 1. leikhluta en aðeins 39 stig samtals eftir það. Valur byrjaði leikinn mun betur og komst í 9-2. Um miðbik 1. leikhluta kom frábær 16-4 kafli hjá Þór sem náði níu stiga forskoti, 20-29. Staðan eftir 1. leikhluta var 23-29, heimamönnum. Valsmenn skelltu í lás í vörninni í upphafi 2. leikhluta. Þeir skoruðu átján stig í röð og náðu mest níu stiga forskoti, 38-29. Það tók Þórsara rúmar fjórar mínútur að skora í 2. leikhluta og þeir gerðu aðeins ellefu stig í honum gegn 23 stigum Valsmanna. Valur var sex stigum yfir í hálfleik, 46-40. Valsvörnin var áfram frábær í 3. leikhluta. Valur skoraði fimmtán stig í röð um miðbik hans þegar Jón Arnór Stefánsson fór hamförum og setti niður fjögur þriggja stiga skot. Valsmenn voru með sautján stiga forskot fyrir 4. leikhluta, 71-54, og því ógnuðu Þórsarar aldrei. Um miðbik 4. leikhluta voru úrslitin ráðin og aðeins spurning hversu stór sigur Vals yrði. Á endanum munaði 31 stigi á liðunum, 99-68. Af hverju vann Valur? Valsvörnin var svakalega öflug eftir 1. leikhluta og Þórsarar fundu engar lausnir á henni. Kristófer Acox, Pavel Ermolinskij og Hjálmar Stefánsson fóru mikinn á varnarhelmingnum og í sókninni lögðu margir hönd á plóg. Valsmenn gáfu 28 stoðsendingar í leiknum en Þórsarar aðeins þrettán. Valur er með miklu meiri breidd en Þór og það kom bersýnilega í ljós í kvöld. Valsmenn fengu tuttugu stig af bekknum áður en þjálfararnir tæmdu þá á meðan Þórsarar fengu ekkert. Hverjir stóðu upp úr? Sem fyrr sagði var liðsheild Vals gríðarlega sterk. Stigaskorið dreifðist vel en eins og venjulega var Jordan Roland stigahæstur með 24 stig. Jón Arnór var frábær í seinni hálfleik og endaði með sautján stig. Kristófer var virkilega flottur á báðum endum vallarins og skilaði fimmtán stigum og fjórtán fráköstum. Hjálmar heldur svo áfram að spila eðalvörn og skoraði auk þess fimmtán stig. Pavel var grjótharður í varnarleiknum og gaf einnig níu stoðsendingar. Dedrick Basile var í mjög strangri gæslu eftir 1. leikhluta en var samt langbesti leikmaður Þórs; skoraði 24 stig, tók sjö fráköst, gaf sjö stoðsendingar og var framlagshæstur á vellinum. Framlag eins manns dugir þó skammt gegn jafn sterku liði og Val eins og Þór fékk að kynnast í kvöld. Hvað gekk illa? Sóknarleikur Þórs var góður í 1. leikhluta en afleitur eftir það. Þeir fungu engar leiðir gegnum Valsvörnina og skotin fyrir utan duttu ekki heldur. Þriggja stiga nýting Þórs var aðeins 24 prósent en 43 prósent hjá Val. Einn besti leikmaður deildarinnar, Ivan Aurrecoechea, átti sennilega sinn versta leik í vetur og lét óvenju lítið að sér kveða í liði Þórs. Hvað gerist næst? Valur mætir Þór aftur í næstu umferð, í Þorlákshöfn, á fimmtudaginn. Sama dag fær Þór Ak. Hött í heimsókn. Finnur Freyr: Aldrei rólegur gegn svona sterkum sóknarmönnum eins og Þórsarar eru með Finnur Freyr Stefánsson er ánægður með gott gengi upp á síðkastið en segir Val eiga mjög erfiða leiki eftir.vísir/vilhelm Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, sagði að sínir menn hefðu hrist af sér slenið í vörninni eftir 1. leikhlutann þar sem þeir fengu á sig 29 stig. „Þetta var þessi værukærð sem hefur verið viðloðandi okkur í allan vetur, að koma flatir út í leikina. Vörnin hertist heldur betur í 2. leikhluta. Við gerðum smá breytingar og strákarnir gerðu mjög vel eftir það,“ sagði Finnur og fór svo aðeins yfir breytingarnar sem Valsmenn gerðu í vörninni. „Við breyttum því hvernig við dekkuðum [Dedrick] Basile, þéttum í kringum hann og tókum sénsa á öðrum. Síðan settum við Hjálmar [Stefánsson] á hann og hann er með sína lengd. Það er erfitt að skjóta yfir Hjálmar, sérstaklega fyrir Basile sem er ekki sá stærsti.“ Þótt Valsmenn hafi verið gott forskot í seinni hálfleik var Finnur aldrei í rónni. „Þórsarar hafa verið í ótrúlegum leikjum, eins og í Garðabænum þar sem unnu þrátt fyrir að vera einhverjum fimmtán stigum undir um miðbik 3. leikhluta. Maður er aldrei rólegur gegn svona sterkum sóknarmönnum eins og Þórsarar eru með,“ sagði Finnur. Valsmenn hafa unnið sex leiki í röð en þrátt fyrir þetta góða gengi er Finnur með báða fætur á jörðinni. „Nú förum við í klisjuna; tökum einn leik í einu. Það er úrslitakeppnisfílingur yfir þessu. Ég held að við höfum talað um það fyrir sex vikum að við þyrftum að fara inn í hvern einasta leik eins og hann væri í úrslitakeppni og reyna að klifra upp töfluna,“ sagði Finnur. „Fyrst vorum við bara að reyna að tryggja okkur inn í úrslitakeppnina en núna leyfum við okkur að dreyma um að klifra eins hátt og hægt er. En við eigum gríðarlega erfiða leiki, gegn tveimur bestu liðum deildarinnar, Keflavík og Þór, á útivelli. Haukarnir eru svo að ná vopnum sínum og við endum svo hérna gegn Grindavík. Þótt það gangi ágætlega núna eigum við erfitt prógramm eftir.“ Bjarki: Valsmenn spiluðu frábæra vörn Strákarnir hans Bjarka Ármanns Oddssonar hafa tapað tveimur leikjum í röð.vísir/vilhelm Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, sagði að vörn Vals hefði verið of öflug fyrir sína menn í kvöld. „Valsmenn spiluðu frábæra í vörn í dag og fá hrós fyrir það. Þeir stóðu sig virkilega vel. Þetta er auðvitað frábært lið og vel mannað og gaman að sjá þennan Jordan Roland í nærmynd. Þetta er flottur spilari. Valsliðið er líklegt til mikilla afreka,“ sagði Bjarki eftir leik. Umræddur Roland bauð ekki upp á sömu flugeldasýninguna og oft áður en skilaði samt 24 stigum. Vörnin var þó lykilinn að sigri Vals. „Valsmenn ýttu okkur út úr því sem við vildum gera. Þeir eru hoknir af reynslu og sýndu frábæran varnarleik,“ sagði Bjarki. Hann vonaðist að sjálfsögðu eftir endurkomu frá sínum mönnum í seinni hálfleik þótt vonin hafi verið veik. „Þetta var langsótt. Við horfðum líka í stigamuninn. Við unnum fyrri leikinn með níu stiga mun og reyndum að gera atlögu að því að minnka þetta undir lokin,“ sagði Bjarki. Þór hefur nú tapað tveimur leikjum í röð og það illa. En óttast Bjarki að missa af úrslitakeppninni? „Jájá, alveg eins. En það er bara Höttur á fimmtudaginn og við sjáum bara til þegar það er búið að telja upp úr hattinum í lokin. Það er gott að það sé stutt á milli þegar illa gengur,“ sagði Bjarki að lokum. Dominos-deild karla Valur Þór Akureyri
Valur vann sinn sjötta sigur í röð þegar liðið lagði Þór Ak. að velli, 99-68, á Hlíðarenda í Domino‘s deild karla í kvöld. Með sigrinum komust Valsmenn upp í 4. sæti deildarinnar. Þórsarar eru í 8. sætinu og í mikilli baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Þór hefur tapað báðum leikjum sínum eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins með samtals 83 stigum. Gríðarlega öflug vörn og sterk liðsheild skilaði Val sigrinum í kvöld. Þór skoraði 29 stig í 1. leikhluta en aðeins 39 stig samtals eftir það. Valur byrjaði leikinn mun betur og komst í 9-2. Um miðbik 1. leikhluta kom frábær 16-4 kafli hjá Þór sem náði níu stiga forskoti, 20-29. Staðan eftir 1. leikhluta var 23-29, heimamönnum. Valsmenn skelltu í lás í vörninni í upphafi 2. leikhluta. Þeir skoruðu átján stig í röð og náðu mest níu stiga forskoti, 38-29. Það tók Þórsara rúmar fjórar mínútur að skora í 2. leikhluta og þeir gerðu aðeins ellefu stig í honum gegn 23 stigum Valsmanna. Valur var sex stigum yfir í hálfleik, 46-40. Valsvörnin var áfram frábær í 3. leikhluta. Valur skoraði fimmtán stig í röð um miðbik hans þegar Jón Arnór Stefánsson fór hamförum og setti niður fjögur þriggja stiga skot. Valsmenn voru með sautján stiga forskot fyrir 4. leikhluta, 71-54, og því ógnuðu Þórsarar aldrei. Um miðbik 4. leikhluta voru úrslitin ráðin og aðeins spurning hversu stór sigur Vals yrði. Á endanum munaði 31 stigi á liðunum, 99-68. Af hverju vann Valur? Valsvörnin var svakalega öflug eftir 1. leikhluta og Þórsarar fundu engar lausnir á henni. Kristófer Acox, Pavel Ermolinskij og Hjálmar Stefánsson fóru mikinn á varnarhelmingnum og í sókninni lögðu margir hönd á plóg. Valsmenn gáfu 28 stoðsendingar í leiknum en Þórsarar aðeins þrettán. Valur er með miklu meiri breidd en Þór og það kom bersýnilega í ljós í kvöld. Valsmenn fengu tuttugu stig af bekknum áður en þjálfararnir tæmdu þá á meðan Þórsarar fengu ekkert. Hverjir stóðu upp úr? Sem fyrr sagði var liðsheild Vals gríðarlega sterk. Stigaskorið dreifðist vel en eins og venjulega var Jordan Roland stigahæstur með 24 stig. Jón Arnór var frábær í seinni hálfleik og endaði með sautján stig. Kristófer var virkilega flottur á báðum endum vallarins og skilaði fimmtán stigum og fjórtán fráköstum. Hjálmar heldur svo áfram að spila eðalvörn og skoraði auk þess fimmtán stig. Pavel var grjótharður í varnarleiknum og gaf einnig níu stoðsendingar. Dedrick Basile var í mjög strangri gæslu eftir 1. leikhluta en var samt langbesti leikmaður Þórs; skoraði 24 stig, tók sjö fráköst, gaf sjö stoðsendingar og var framlagshæstur á vellinum. Framlag eins manns dugir þó skammt gegn jafn sterku liði og Val eins og Þór fékk að kynnast í kvöld. Hvað gekk illa? Sóknarleikur Þórs var góður í 1. leikhluta en afleitur eftir það. Þeir fungu engar leiðir gegnum Valsvörnina og skotin fyrir utan duttu ekki heldur. Þriggja stiga nýting Þórs var aðeins 24 prósent en 43 prósent hjá Val. Einn besti leikmaður deildarinnar, Ivan Aurrecoechea, átti sennilega sinn versta leik í vetur og lét óvenju lítið að sér kveða í liði Þórs. Hvað gerist næst? Valur mætir Þór aftur í næstu umferð, í Þorlákshöfn, á fimmtudaginn. Sama dag fær Þór Ak. Hött í heimsókn. Finnur Freyr: Aldrei rólegur gegn svona sterkum sóknarmönnum eins og Þórsarar eru með Finnur Freyr Stefánsson er ánægður með gott gengi upp á síðkastið en segir Val eiga mjög erfiða leiki eftir.vísir/vilhelm Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, sagði að sínir menn hefðu hrist af sér slenið í vörninni eftir 1. leikhlutann þar sem þeir fengu á sig 29 stig. „Þetta var þessi værukærð sem hefur verið viðloðandi okkur í allan vetur, að koma flatir út í leikina. Vörnin hertist heldur betur í 2. leikhluta. Við gerðum smá breytingar og strákarnir gerðu mjög vel eftir það,“ sagði Finnur og fór svo aðeins yfir breytingarnar sem Valsmenn gerðu í vörninni. „Við breyttum því hvernig við dekkuðum [Dedrick] Basile, þéttum í kringum hann og tókum sénsa á öðrum. Síðan settum við Hjálmar [Stefánsson] á hann og hann er með sína lengd. Það er erfitt að skjóta yfir Hjálmar, sérstaklega fyrir Basile sem er ekki sá stærsti.“ Þótt Valsmenn hafi verið gott forskot í seinni hálfleik var Finnur aldrei í rónni. „Þórsarar hafa verið í ótrúlegum leikjum, eins og í Garðabænum þar sem unnu þrátt fyrir að vera einhverjum fimmtán stigum undir um miðbik 3. leikhluta. Maður er aldrei rólegur gegn svona sterkum sóknarmönnum eins og Þórsarar eru með,“ sagði Finnur. Valsmenn hafa unnið sex leiki í röð en þrátt fyrir þetta góða gengi er Finnur með báða fætur á jörðinni. „Nú förum við í klisjuna; tökum einn leik í einu. Það er úrslitakeppnisfílingur yfir þessu. Ég held að við höfum talað um það fyrir sex vikum að við þyrftum að fara inn í hvern einasta leik eins og hann væri í úrslitakeppni og reyna að klifra upp töfluna,“ sagði Finnur. „Fyrst vorum við bara að reyna að tryggja okkur inn í úrslitakeppnina en núna leyfum við okkur að dreyma um að klifra eins hátt og hægt er. En við eigum gríðarlega erfiða leiki, gegn tveimur bestu liðum deildarinnar, Keflavík og Þór, á útivelli. Haukarnir eru svo að ná vopnum sínum og við endum svo hérna gegn Grindavík. Þótt það gangi ágætlega núna eigum við erfitt prógramm eftir.“ Bjarki: Valsmenn spiluðu frábæra vörn Strákarnir hans Bjarka Ármanns Oddssonar hafa tapað tveimur leikjum í röð.vísir/vilhelm Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, sagði að vörn Vals hefði verið of öflug fyrir sína menn í kvöld. „Valsmenn spiluðu frábæra í vörn í dag og fá hrós fyrir það. Þeir stóðu sig virkilega vel. Þetta er auðvitað frábært lið og vel mannað og gaman að sjá þennan Jordan Roland í nærmynd. Þetta er flottur spilari. Valsliðið er líklegt til mikilla afreka,“ sagði Bjarki eftir leik. Umræddur Roland bauð ekki upp á sömu flugeldasýninguna og oft áður en skilaði samt 24 stigum. Vörnin var þó lykilinn að sigri Vals. „Valsmenn ýttu okkur út úr því sem við vildum gera. Þeir eru hoknir af reynslu og sýndu frábæran varnarleik,“ sagði Bjarki. Hann vonaðist að sjálfsögðu eftir endurkomu frá sínum mönnum í seinni hálfleik þótt vonin hafi verið veik. „Þetta var langsótt. Við horfðum líka í stigamuninn. Við unnum fyrri leikinn með níu stiga mun og reyndum að gera atlögu að því að minnka þetta undir lokin,“ sagði Bjarki. Þór hefur nú tapað tveimur leikjum í röð og það illa. En óttast Bjarki að missa af úrslitakeppninni? „Jájá, alveg eins. En það er bara Höttur á fimmtudaginn og við sjáum bara til þegar það er búið að telja upp úr hattinum í lokin. Það er gott að það sé stutt á milli þegar illa gengur,“ sagði Bjarki að lokum.