Á þessari stundu er nýgengið yfir 700 í 16 löndum samkvæmt mati sóttvarnalæknis. Þar á meðal eru Bermúda, Frakkland, Holland, Króatía, Pólland og Litháen.
Þar með er viðmiðið farið að nálgast það nýgengi sem var miðað við í fyrstu reglugerðinni sem skyldaði fólk til dvalar á sóttkvíarhóteli, en þar var það 500. Sú reglugerð var harðlega gagnrýnd og að lokum dæmd ólögmæt.
Síðan boðaði ríkisstjórnin nýjar ráðstafanir, þar sem viðmiðið um afdráttarlausa skylduvist á sóttkvíarhóteli var nýgengi upp á 1.000 smit. Fallið var frá því viðmiði og nú hefur það verið lækkað í 700.
Dvölin ókeypis
Þegar nýgengið er á bilinu 500-700 verður meginreglan sú að farþegar séu sendir rakleiðis á sóttkvíarhótel við komuna til landsins. Þeir hafa þó kost á að sækja um undanþágu frá því ef þeir geta sýnt fram á að þeir hafi fullnægjandi aðstæður til að afplána sóttkvína í heimahúsi.
Sextán lönd eru í 500-700 flokknum þessa stundina, eins og má lesa nánar um hér. Þar á meðal eru Eistland, Grikkland, Spánn, Búlgaría og Ítalía.
Þeim sem koma frá svæðum þar sem 14 daga nýgengi smita er innan við 500 á hverja 100.000 íbúa er heimilt að vera í sóttkví á eigin vegum, geti þeir uppfyllt skilyrði sóttvarnalæknis um heimasóttkví.
Þegar þessi reglugerð tekur gildi á þriðjudaginn er ljóst að verulegur fjöldi fólks verður skikkaður á sóttkvíarhótel án þess að eiga kost á undanþágu. Mikill hluti farþega sem hingað koma hafa verið í Póllandi og sá hópur mun allur skikkaður á hótelið. Dvölin er með öllu gjaldfrjáls fyrir gestina.