Erlent

Ráðgjafar CDC mæla með áframhaldandi notkun bóluefnisins frá Johnson & Johnson

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðvörun mun fylgja bóluefninu um mögulega blóðtappamyndun hjá konum yngri en 50 ára.
Viðvörun mun fylgja bóluefninu um mögulega blóðtappamyndun hjá konum yngri en 50 ára. AP/Marta Lavandier

Ráðgjafar bandarísku sóttvarnastofnunarinnar í bóluefnamálum mæla með því að notkun Covid-19 bóluefnisins frá Johnson & Johnson verði haldið áfram. Tíu greiddu atkvæði með tillögunni, fjórir á móti og einn sat hjá.

Tillagan sem kosið var um kvað á um að bóluefnið yrði boðið einstaklingum 18 ára og eldri.

CNN hafði áður greint frá því að fjórir kostir væru til skoðunar: Að bjóða öllum aldurshópum og kynjum upp á efnið, að banna notkun efnisins, að mæla með því fyrir aldurshópinn 50 ára og eldri eða mæla með því að konur yngri en 50 ára yrðu bólusettar með öðru efni.

Bóluefnið hefur verið til skoðunar í Bandaríkjunum og Evrópu vegna nokkurra tilvika sem komið hafa upp þar sem einstaklingar hafa fengið sjaldgæfa alvarlega blóðtappa, í ætt við þá sem hafa verið tengdir við notkun bóluefnisins frá AstraZeneca.

Starfsmenn sóttvarnastofnunarinnar (CDC) segja líklegt að ef notkun bóluefnisins frá Johson & Johnson verði haldið áfram sé líklegt að fleiri muni upplifa hinar alvarlegu aukaverkanir en að á sama tíma muni notkun þess sömuleiðis bjarga lífum og koma í veg fyrir sjúkrahúsinnlagnir.

Fimmtán alvarleg blóðtappatilvik hafa verið tilkynnt í Bandaríkjunum í tengslum við bólusetningar með bóluefninu frá Johson & Johnson. Í þrettán tilvikum var um að ræða konur undir 50 ára. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×