Umfjöllun og viðtöl: ÍR- Keflavík 109-116 | Áttundi sigur Kefl­víkinga í röð og deildar­meistara­titilinn í aug­sýn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Calvin Burks skoraði 31 stig fyrir Keflavík gegn ÍR.
Calvin Burks skoraði 31 stig fyrir Keflavík gegn ÍR. vísir/vilhelm

Keflavík vann sinn áttunda leik í röð þegar liðið bar sigurorð af ÍR, 109-116, í framlengdum hörkuleik í Seljaskóla í Domino's deild karla í kvöld.

Með sigrinum færðust Keflvíkingar enn nær deildarmeistaratitlinum. ÍR-ingar eru hins vegar áfram í 9. sæti og ekki í úrslitakeppninni eins og staðan er núna. 

Þetta var fjórða tap ÍR í röð en frammistaðan var mun betri en í síðustu leikjum. Breiðhyltingar hættu aldrei og léku vel á löngum köflum.

ÍR byrjaði betur og skoraði fyrstu sjö stig leiksins. Keflavík skoraði hins vegar 21 af næstu 24 stigum leiksins og náði ellefu stiga forskoti, 10-21.

ÍR svaraði með sjö stigum í röð en Keflavík endaði 1. leikhlutann mun betur og var níu stigum yfir, 19-28, að honum loknum.

Keflvíkingar héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt í upphafi 2. leikhluta. Þeir tættu skelfilega vörn ÍR-inga í sig hvað eftir annað, fengu þau skot sem þeir vildu og settu þau flest ofan í. Calvin Burks fór mikinn og Deane Williams var öflugur að vanda.

Burks kom Keflavík fimmtán stigum yfir, 26-41, þegar þrjár mínútur voru búnar af 2. leikhluta. Þá var Borche Ilievski, þjálfara ÍR, nóg boðið og tók leikhlé.

Heimamenn skoruðu átta fyrstu stigin eftir leikhléið og fóru að plokka af forystu gestanna. Evan Singletary hrökk í gang og þeir Collin Pryor og Zvonko Buljan léku vel.

Keflavík komst í 43-51 en ÍR kláraði fyrri hálfleikinn með 12-6 kafla og voru aðeins tveimur stigum undir í hálfleik, 55-57.

ÍR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega, skoruðu fyrstu þrettán stig hans og komust ellefu stigum yfir, 68-57. Keflvíkingar svöruðu hertu þá vörnina og ÍR-ingar skoraði aðeins sjö stig það sem eftir lifði 3. leikhluta. Á meðan skoraði Keflavík 27 stig og var níu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 75-84.

Keflvíkingar héldu ÍR-ingum í seilingarfjarlægð framan af honum en Breiðhyltingar hættu aldrei. Eftir 8-0 kafla minnkuðu þeir muninn í fjögur stig, 90-94, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir.

Buljan minnkaði muninn í tvö stig, 97-99, og ÍR-ingar brutu svo á Burks þegar tólf sekúndur voru eftir. Hann setti annað vítið niður og því geta ÍR jafnað með þriggja stiga körfu. Og það gerði Danero Thomas þegar 0,09 sekúndur voru eftir. Staðan 100-100 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni reyndist Keflavík sterkari á meðan ÍR þvarr kraftur. Keflvíkingar sóttu grimmt á körfuna með góðum árangri og gerðu svo nógu vel í vörninni til að síga fram úr.

Keflvíkingar unnu á endanum sjö stiga sigur, 109-116, sem þeir þurftu að hafa mikið fyrir gegn ólseigum ÍR-ingum.

Danero Thomas tryggði ÍR-ingum framlengingu þegar hann setti niður þriggja stiga skot undir lok leiksins.vísir/vilhelm

Af hverju vann Keflavík?

Sóknarleikur Keflvíkinga var lengst af góður og þeir hittu vel. Varnarleikurinn var mjög slakur í 2. leikhluta þar sem þeir fengu á sig 36 stig og framan af þeim þriðja en um miðbik hans þéttu þeir vörnina sem gerði þeim kleift að ná tökum á leiknum á ný. Í framlengingunni náðu þeir svo að stoppa nógu oft til að sigla stigunum tveimur í höfn.

Keflvíkingar voru mun sterkari inni í teig þar sem þeir skoruðu 56 stig gegn 38 og unnu frákastabaráttuna, 47-31.

Hverjir stóðu upp úr?

Williams átti frábæran leik í liði Keflavík. Hann skoraði 34 stig, tók sextán fráköst, gaf fjórar stoðsendingar, varði tvö skot og var með 47 framlagsstig, flest allra á vellinum. Burks var mjög góður í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði sautján af 31 stigi sínu. Hann var þó ótraustur á vítalínunni undir lok venjulegs leiktíma. 

Dominykas Mikla var að venju öflugur með 24 stig og þrettán fráköst og Hörður Axel Vilhjálmsson hóf endurkomu Keflvíkinga í 3. leikhluta og skoraði svo mikilvægar körfur undir lokin.

Buljan átti sennilega sinn besta leik í ÍR-treyjunni; skoraði 34 stig, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar. Singletary fór mikinn í 2. leikhluta og Collin Pryor var að venju góður.

Hvað gekk illa?

Vörn ÍR var ekki góð fyrir utan í 4. leikhluta þar sem þeir náðu loks nokkrum stoppum. Vörnin var sérstaklega slök í fyrri hálfleik þar sem gestirnir skoruðu 57 stig.

Keflvíkingar hafa sömuleiðis oft spilað betri vörn. Þeir náðu þó fleiri sæmilegum varnarköflum en ÍR-ingum og það skildi á milli.

Hvað gerist næst?

Á fimmtudaginn sækir ÍR Grindavík heim í mikilvægum leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Á föstudaginn tekur Keflavík svo á móti KR.

Borche: Sigrar búa til sjálfstraust og okkur vantar þá

Zvonko Buljan lék einkar vel fyrir ÍR í kvöld.vísir/vilhelm

Borche Ilevski, þjálfari ÍR, kvaðst sáttur með frammistöðuna gegn Keflavík en var svekktur að hún skildi ekki skila sigri gegn toppliðinu.

„Þetta var góður leikur fyrir stuðningsmennina. Bæði lið skoruðu mikið. En við brugðumst ekki við í vörninni eins og við vildum og gerðum mistök í vagg og veltunni [e. pick and roll] með Herði Axel [Vilhjálmssyni] og [Dominykas] Milka. Keflvíkingar spila það mjög mikið, við gerðum ráðstafanir fyrir leik en á vellinum gerðist annað. Þeir skoruðu mörg stig úr þessu,“ sagði Borche eftir leikinn.

„Við komum leiknum í framlengingu en Keflavík var einfaldlega betra liðið í kvöld.“

ÍR skoraði 109 stig gegn besta varnarliði deildarinnar í kvöld. Borche kvaðst sáttur með það en vill fara að vinna leiki.

„Við erum ánægðir með það en við þurfum að hugsa um að vinna leiki, sérstaklega þegar deildin er að verða brjáluð. Þú veist aldrei hvað gerist. Við þurfum nauðsynlega á sigri að halda og vonandi kemur hann í næsta leik,“ sagði Borche.

ÍR er núna í 9. sæti deildarinnar. Borche vonast til að sínir menn komist í úrslitakeppnina en þeir eru ekki inni í henni eins og staðan er núna.

„Ég er auðvitað áhyggjufullur en önnur lið eru líka áhyggjufull. Þetta er skrítið tímabil. Það eru nokkur lið, eins og Njarðvík, Grindavík og við, sem eru í vandræðum. Þetta er ótrúlega skrítið tímabil. En þessi leikur sýndi að við getum spilað gegn öllum í deildinni og við verðum sterkari og með meira sjálfstraust í næstu leikjum,“ sagði Borche. „En sigrar búa til sjálfstraust og okkur vantar þá.“

Hjalti: Bundum vörnina saman í framlengingunni

Þjálfari Keflavíkur, Hjalti Þór Vilhjálmsson, fagnaði því að lenda í spennuleik.vísir/vilhelm

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með að hafa náð að vinna ÍR eftir framlengdan leik í Seljaskóla í kvöld.

„Sóknarleikurinn var fínn en við vorum rosalega hægir á fótunum í varnarleiknum og orkulausir. En ég er sáttur með sigurinn,“ sagði Hjalti.

Keflvíkingar fengu fjölmörg tækifæri til að slíta sig frá ÍR-ingum en það gekk ekki fyrr en í framlengingunni.

„Orkuna,“ sagði Hjalti aðspurður hvað hefði vantað hjá Keflvíkingum í kvöld.

„Það vantaði smá greddu og vinnslu í vörninni. Við skildum þá eftir opna og svo opnuðum við alltof mikið á þá á körfuna. Það var hellingur sem var að í vörninni. Við vorum alltof hægir á fótunum.“

Keflvíkingar hafa unnið átta leiki í röð, flesta örugglega. Núna fengu þeir hins vegar alvöru prófraun gegn ÍR-ingum sem hættu aldrei. Hjalti segir að þetta geti hjálpað Keflavík í framhaldinu.

„Þetta er mjög gott og bara fyrir mig hvernig menn bregðast við. Ég var ánægður með það,“ sagði Hjalti.

Í framlengingunni sigldu Keflvíkingar loks fram úr og kláruðu leikinn. „Við náðum nokkrum stoppum og bundum vörnina saman,“ sagði Hjalti um ástæðu þess að Keflavík var sterkari aðilinn í framlengingunni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira