Fótbolti

Aðeins 33 ára en ráðinn þjálfari Bayern til næstu fimm ára

Sindri Sverrisson skrifar
Julian Nagelsmann hefur þótt standa sig afar vel með RB Leipzig.
Julian Nagelsmann hefur þótt standa sig afar vel með RB Leipzig. Getty/Odd Andersen

Hinn 33 ára gamli Julian Nagelsmann hefur verið ráðinn þjálfari Bayern München frá og með 1. júlí. Nagelsmann skrifaði undir samning til fimm ára við sigursælasta félag Þýskalands.

Nagelsmann, sem stýrt hefur RB Leipzig síðustu ár, tekur við af Hansi Flick. Flick komst að samkomulagi við Bayern um að rifta samningi sínum við félagið í sumar, tveimur árum áður en hann átti að renna út, til að taka við þýska landsliðinu.

Fjölmiðlamaðurinn og skúbbkóngurinn Fabrizio Romano segir á Twitter að Bayern greiði Leipzig 25 milljónir evra fyrir Nagelsmann, sem hafi hafnað Tottenham og fleiri félögum til að taka við Bayern.

Nagelsmann varð að leggja knattspyrnuskóna á hilluna árið 2008, þá aðeins 21 árs, vegna hnémeiðsla, og sneri sér þá að þjálfun. Fyrsta stóra starfið hans var hjá Hoffenheim sem hann tók við árið 2016 en hann varð þá yngsti þjálfarinn í sögu þýsku 1. deildarinnar, 28 ára gamall. 

Nagelsmann tók við Hoffenheim í 17. sæti en stýrði liðinu frá falli, og kom því svo í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. 

Hann fékk samningi sínum við Hoffenheim rift árið 2019 til þess að taka við Leipzig sem hann kom meðal annars í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð.

Enn einn þýski meistaratitillinn blasir við Bayern sem er með sjö stiga forskot á Leipzig þegar þrjár umferðir eru eftir. Bayern getur því landað titlinum á laugardag, annað hvort með því að Leipzig tapi á útivelli gegn Dortmund eða með því að vinna Borussia Mönchengladbach á heimavelli síðar um daginn.

Núverandi og verðandi lið Nagelsmanns eru hins vegar bæði úr leik í Meistaradeild Evrópu en Leipzig féll út í 16-liða úrslitum gegn Liverpool og Bayern í 8-liða úrslitum gegn PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×