Innlent

Seðla­banka­stjóri vildi ekki ræða á­hrif hags­muna­hópa

Kjartan Kjartansson skrifar
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, afþakkaði boð um að koma fyrir þingnefnd til að ræða nýleg ummæli um áhrif hagsmunahópa á Íslandi.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, afþakkaði boð um að koma fyrir þingnefnd til að ræða nýleg ummæli um áhrif hagsmunahópa á Íslandi. Vísir/Vilhelm

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, baðst undan því að mæta á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að ræða ummæli hans í nýlegu viðtali um áhrif hagsmunahópa í íslensku samfélagi. Fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni segir Ásgeir ekki hafa talið sig réttan manninn til að ræða málið.

Ummæli Ásgeirs sem féllu í viðtali við Stundina á dögunum vöktu töluverða athygli. Þar sagði hann meðal annars að Íslandi væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og að meiriháttar mál væri að lenda uppi á kant við þá. Þetta sagði seðlabankastjóri í samhengi við gagnrýni sína á hvernig útgerðarfyrirtækið Samherji hefur ráðist á að starfsfólki bankans undanfarið.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að hann hafi óskað eftir því að Ásgeir kæmi fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndina til þess að ræða orð hans um áhrif hagsmunahópa á Íslandi.

„Því miður þekktist Seðlabankastjóri ekki boðið, hann telur sig ekki réttan aðila til að leggja mat á þessi mál með nefndinni. Ég virði þá afstöðu,“ skrifaði Kolbeinn í færslu á Facebook-síðu sína í dag.

Birti Kolbeinn hluta af svari Seðlabankans við óskinni um að bankastjórinn kæmi fyrir nefndina.

„Efni viðtalsins beindist einkum að því að vekja athygli á að margvíslegir hagsmunahópar eru fyrirferðarmiklir í íslensku þjóðlífi og hafa áhrif á stefnumótun, stefnu og löggjöf, til að mynda hagsmunasamtök launþega, vinnuveitenda, atvinnurekenda, lífeyrissjóðir og fleiri,“ sagði í svari bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×