Skoðun

Opið bréf til dóms­mála­ráð­herra vegna starfs­hóps um happ­drætti

Alma Hafsteinsdóttir skrifar

Spilafíkn á sér margar hliðar og telja Samtök áhugafólks um spilafíkn mikilvægt að koma sínum sjónarmiðum að í allri umræðu sem fram fer um þennan vanda eða málefni sem honum tengjast. Af þeim sökum var tekið jákvætt í ósk dómsmálaráðherra um að tilnefna fulltrúa í starfshóp sem ætlað er „að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála.” 

Samtökin sjá engu að síður ástæðu til að gera athugasemdir við þessa nefndarskipan ásamt hlutverki starfshópsins. 

Í fyrsta lagi er nefndinni ekki ætlað að fjalla um þá kröfu að spilakössum verði lokað til frambúðar eins og fram hefur komið í ítarlegri skoðanakönnun á vegum Gallup að er vilji 86% þjóðarinnar. 

Í öðru lagi vekur athygli að yfirgnæfandi meirihluti nefndarmanna er frá stofnunum og samtökum sem hafa beina fjárhagslega hagsmuni af rekstri spilakassa og happdrætta.

Í þriðja lagi er starfsvið nefndarinnar um margt óljóst og hefði mátt ætla að markvissara væri að afmarka tiltekin álitamál svo sem hvað varðar netspilun, samvinnu rekstraraðila, spilakort, eftirlit, rannsóknir og meðferðarúrræði á spilafíkn í stað þess að ætla starfsnefnd að komast að niðurstöðu um alla þessa þætti. 

Í erindisbréfinu ægir öllu saman en athygli vekur að efst á blaði segir að kannaðir skuli „möguleikar núverandi sérleyfishafa á happdrættismarkaði hér á landi til að bjóða upp á spil á netinu.” 

Samtök áhugafólks um spilafíkn fagna allri umræðu um málefnið en að sjálfsögðu að því tilskyldu að verið sé af alvöru að takast á við þann vágest sem fjárhættuspil eru í lífi margra einstaklinga og fjölskyldna. Erindisbréf dómsmálaráðherra og nefndarskipun ber þess því miður ekki vott að vilji sé til að nálgast spilavandann úr þessari átt. SÁS ítreka að samtökin munu framvegis sem hingað til kappkosta að leggja gott til málanna hvar sem færi gefst. 

Virðingarfyllst, Alma Hafsteins, f.h Samtaka áhugafólks um spilafíkn.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×