Innlent

Guð­laugur Þór vill leiða lista Sjálf­stæðis­manna í Reykja­vík

Eiður Þór Árnason skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Stöð 2/Arnar

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sækist eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar. Guðlaugur Þór leiddi lista Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu kosningar.

Frá þessu greinir hann í færslu á Facebook-síðu sinni en ákveðið var á fundi Varðar – Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í gær að efna til prófkjörs við val á framboðslistum flokksins. Fer sameiginlegt prófkjör fyrir Reykjavíkurkjördæmin fram dagana 4. til 5. júní. 

„Það hefur verið mér heiður að veita Sjálfstæðismönnum í Reykjavík forystu á þessu kjörtímabili sem fyrsti þingmaður Reykjavíkur. Margt hefur áunnist við krefjandi aðstæður og enn er verk að vinna. Ég óska áfram eftir stuðningi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldið verður dagana 4.-5. júní næstkomandi,“ skrifar Guðlaugur Þór. 

Hann segist fagna því að ákveðið hafi verið að efna til prófkjörs. Guðlaugur Þór hefur verið þingmaður fyrir Reykjavík frá árinu 2013. 

Auglýst var eftir framboðum til prófkjörs í Reykjavík í dag og rennur fresturinn út þann 14. maí. Tillögur til yfirkjörstjórnar þurfa að vera bornar fram af minnst tuttugu flokksmönnum búsettum í kjördæminu. Þá er yfirkjörstjórn einnig heimilt að tilfefna frambjóðendur. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×