Erlent

Sakar Mari­lyn Man­son um kyn­ferðis­of­beldi og líkams­meiðingar

Sylvía Hall skrifar
Í kæru Bianco kemur fram að samband þeirra hafi hafist árið 2009 og þau hafi verið í fjarsambandi til ársins 2011.
Í kæru Bianco kemur fram að samband þeirra hafi hafist árið 2009 og þau hafi verið í fjarsambandi til ársins 2011. Vísir/Getty

Leikkonan Esmé Bianco hefur kært söngvarann Marilyn Manson fyrir kynferðisofbeldi og líkamsmeiðingar. Leikkonan, sem er hvað frægust fyrir hlutverk sitt í Game of Thrones, segir söngvarann hafa neytt hana til samfara árið 2011 með því að þvinga í hana eiturlyf og beita hana valdi.

Fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað söngvarann um kynferðisofbeldi undanfarna mánuði. Leikkonan Evan Rachel Wood, sem var í sambandi með söngvaranum árin 2007 til 2010, greindi frá því fyrr á árinu að söngvarinn hefði beitt hana ofbeldi í sambandi þeirra en Manson sagði ekkert vera til í þeim fullyrðingum.

Í kæru Bianco kemur fram að samband þeirra hafi hafist árið 2009 og þau hafi verið í fjarsambandi til ársins 2011. Á þeim tíma hafi hann í mörg skipti þvingað hana til samfara sem oft á tíðum voru ofbeldisfullar og niðurlægjandi. Í eitt skipti hafi hann boðið henni til Los Angeles í Bandaríkjunum til þess að taka upp tónlistarmyndband en þegar hún var komin til Bandaríkjanna reyndist ekkert tónlistarmyndband vera í bígerð. Dvaldi hún á heimili hans í fjóra daga, þar sem hún fékk hvorki hvíld né mat.

„Og mögulega það ógeðfelldasta var að [Manson] lokaði ungfrú Bianco í svefnherberginu, batt hana við bænakoll og barði hana með svipu sem hann sagðist hafa vera notaða af nasistum. Hann gaf henni einnig raflost,“ segir í kærunni.

Útgáfufyrirtæki Manson og bókari hans hafa rift samningum sínum við hann í kjölfar ásakananna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×