Erlent

Sjá fram á skort á bólu­efni og súr­efni sam­hliða versnandi stöðu far­aldursins

Sylvía Hall skrifar
400 þúsund greindust með veiruna á einum degi en sjúkrahús sjá fram á skort á súrefni og sjúkrarúmum.
400 þúsund greindust með veiruna á einum degi en sjúkrahús sjá fram á skort á súrefni og sjúkrarúmum. Vísir/Getty

Tæplega 3.600 létust af völdum Covid-19 á Indlandi síðastliðinn sólarhring. 400 þúsund greindust með veiruna á einum degi, en er það í fyrsta skipti sem það gerist í einu landi. Indland hefur farið einna verst út úr kórónuveirufaraldrinum, en rúmlega 19 milljónir hafa greinst með veiruna þar í landi frá upphafi faraldursins.

Yfirvöld á Indlandi hafa hrundið af stað bólusetningaátaki en horfa engu síður fram á mikinn skort á efni. Einnig er skortur á súrefni fyrir sjúklinga sem og á sjúkrarúmum. Hingað til hafa framlínustarfsmenn og einstaklingar eldri en 45 ára notið forgangs í bólusetningu og hafa 150 milljónir þegar fengið sprautu af bóluefni, sem er þó aðeins 11,5 prósent af íbúafjölda.

Vegna ástandsins hafa áströlsk yfirvöld bannað ferðalög til Indlands og gætu ástralskir ríkisborgarar átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisvist og fjársektir snúi þeir aftur til Ástralíu frá Indlandi. Fyrr í vikunni var flugumferð frá Indlandi til Ástralíu bönnuð en talið er að um níu þúsund Ástralar séu í Indlandi.

Mörg ríki í Asíu og Evrópu hafa tilkynnt hertar reglur við komur frá Indlandi, þar á meðal Bretland, Frakkland, Ítalía, Belgía og Þýskaland. Bandarísk yfirvöld hafa einnig boðað að enginn ferðist til landsins frá Indlandi innan tveggja vikna fyrir komu, nema bandarískir ríkisborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×