Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins þar sem haft er eftir Dominic Raab utanríkisráðherra að þjóðin væri í góðri stöðu til þess að endurheimta nær eðlilegt líf aftur. „En það þurfa að vera einhverjar varúðarreglur í gildi,“ sagði hann.
Vel hefur gengið í bólusetningum í Bretlandi og er stefnt að næstu tilslökunum þann 17. maí næstkomandi. Þá er útlit fyrir að veitingastaðir, krár og kaffihús megi þjóna fólki innandyra en sem stendur er það aðeins heimilt utandyra. Ferðalög milli landa eru einnig á dagskrá með sambærilegu kerfi og litakóðunarkerfið sem íslensk stjórnvöld hafa kynnt.
Ekki liggur fyrir hvort unglingar verði fái bóluefni gegn kórónuveirunni en Raab segir það vissulega í skoðun. Staðan sé þó þokkaleg eins og er, en allt velti á raunverulegri stöðu faraldursins hverju sinni og gögnin muni ráða för við ákvörðun um næstu skref.