Körfubolti

„Maður vill vera í betra standi en þetta en samt gott að vera kominn aftur“

Atli Arason skrifar
Júlíus Orri Ágústsson
Júlíus Orri Ágústsson vísir/bára

Júlíus Orri Ágústsson, leikmaður Þór Akureyri, spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma eftir erfið meiðsli. Júlíus spilaði í heildina 8 og hálfa mínútu gegn Njarðvík í kvöld en náði þó ekki að setja nein stig á töfluna.

„Það er gaman að vera kominn aftur en maður vill vera í betra standi en þetta en samt gott að vera kominn aftur,“ sagði Júlíus Orri.

Júlíus var hins vegar ekki sáttur við frammistöðu Þórs í þessum mikilvæga leik gegn Njarðvík sem tapaðist með 22 stigum, 97-75.

Í beinni: Njarðvík - Þór Ak. | Sigur það eina sem er í boði fyrir Njarðvíkinga

„Þetta er mjög svekkjandi, mér fannst við spila sem fimm einstaklingar í dag frekar en að spila sem lið. Sérstaklega þegar þetta er mikilvægasti tímapunkturinn þá er óboðlegt að bjóða upp á svona frammistöðu.“

„Mér fannst við brotna allt of snemma og ef við förum undir þá endum við að tapa með 20 eins og hefur gerst allt of oft í vetur.“

Þór Akureyri er sem stendur með verstu nettó stiga söfnun í deildinni eða -141 stig. Fari svo að Njarðvík og Þór endi jöfn af stigum í deildinni þá endar Njarðvík ofar í töflunni á nettó stigatölu vegna þess að bæði lið unnu innbyrðis viðureignirnar með 22 stiga mun. Njarðvík er með -52 stig í nettó eins og staðan er núna.

Þór var lengi vel inn í leiknum en að loknum þriðja leikhluta var Njarðvík aðeins sjö stigum yfir en leikur Þórs hrynur í fjórða leikhluta þar sem þeir tapa leikhlutanum með 15 stigum. Aðspurður að því hvað gerist hjá Þór í fjórða fjórðung hefur Júlíus fá svör.

„Ég bara veit það ekki. Örugglega bara andleysi og væl í dómaranum og eitthvað svoleiðis. Það er samt enginn afsökun fyrir því hvað við spiluðum illa í kvöld. Við vorum bara mjög lélegir.“

Eftir að hafa verið á flugi fyrir covid hlé hafa Akureyringar núna tapað fjórum leikjum í röð eftir hlé. Júlíus kallar eftir því að liðið svari þessu slæma gengi undanfarið í næstu og síðustu tveimur leikjunum sínum.

„Ég held bara að við séum svolítið andlausir. Hléið hefur greinilega farið mjög illa í okkur. Við verðum bara að laga þetta á móti Þorlákshöfn og Haukum og vinna síðustu tvo.“

Næsti leikur liðsins er gegn Þór í Þorlákshöfn. Júlíus telur þennan leik mikilvægan ef Þór Akureyri ætlar sér ekki að sogast niður í fallbaráttuna.

„Miðað við hvernig staðan er núna þá verðum við bara að gefa okkur alla fram í þessa tvo leiki til að halda okkur uppi og vonandi komast í úrslitakeppnina,“ sagði Júlíus Orri Ágústsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×