Bjarni mælti fyrir frumvarpi um framlengingu úrræðisins á Alþingi í dag en gildandi heimild rennur að óbreyttu út í sumar.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en þar segir að meðaltali um 22 þúsund manns hafi fengið greiðslur inn á höfuðstól íbúðalána á mánuði í þau sjö ár sem úrræðið hafi staðið til boða. Það var sett fyrst í lög með bráðabirgðaákvæði um mitt ár 2014. Alls hafa um 60 þúsund manns greitt séreign skattfrjálst inn á lán sín.
Að sögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins er gert ráð fyrir að allt að 24 milljarðar króna verði greiddir út til viðbótar inn á höfuðstól íbúðalána næstu tvö árin ef framlengingin verður samþykkt.
„Úrræðið hefur gefist vel, reynst mikil kjarabót fyrir þúsundir Íslendinga og stuðlað að hraðari eignamyndun einstaklinga og fjölskyldna á húsnæðismarkaði. Með tilliti til þessa er taldi ég rétt að koma til móts við óskir fjölda einstaklinga og hagsmunasamtaka um framlengingu þess, og ég treysti á að málið fái skjóta afgreiðslu á Alþingi,” er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í tilkynningunni.