Kaflinn sem á að malbika er austanmegin í Þverárhlíð og teygir sig raunar niður í Hvítársíðu. Hann nær frá gatnamótum Borgarfjarðarbrautar ofan Kljáfoss, framhjá kirkjustaðnum Norðtungu og að Högnastöðum.
Tilboðsfrestur rennur út þann 18. maí næstkomandi og má gera ráð fyrir að framkvæmdir verði komnar á fullt fyrri hluta sumars. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. júlí 2022.
Fleiri vegarbætur eru framundan í Borgarfjarðarhéraði. Vegagerðin hefur einnig boðið út lagningu bundins slitlags á Melasveitarveg. Þar á að malbika 4,9 kílómetra kafla milli Bakka og svínabúsins á Melum. Tilboðsfrestur er sömuleiðis til 18. maí og á vegurinn að vera tilbúinn eigi síðar en 30. júní 2022.
Ofan Húsafells er Borgarverk ehf. að leggja slitlag á 2,8 kílómetra kafla milli Hvítár og Kalmanstungu og á Mýrum vestan Borgarness er Þróttur ehf. að leggja slitlag á 7,5 kílómetra kafla Álftaneshreppsvegar, milli gatnamóta Snæfellsnesvegar við Langárfoss og Leirulækjar. Báðir kaflarnir eiga að klárast fyrir 1. ágúst í sumar.
Með þessum fjórum verkefnum bætast alls um 24 kílómetrar malbiks á sveitavegi í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu á þessu og næsta ári.