Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá samningnum í morgun. Samkvæmt honum kaupir sambandið að minnsta kosti 900 milljónir skammta af bóluefninu og kauprétt á að minnsta kosti jafnmörgum skömmtum í viðbót. Upphaflegur samningur ESB og fyrirtækjanna tveggja hljóðaði upp á 600 milljónir skammta.
Öll aðildarríkin hafa lagt blessun sína yfir samninginn en hann kveður á um að öll innihaldsefni bóluefnisins verði fengin frá Evrópusambandslöndum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Evrópusambandið hefur yfir um 2,6 milljörðum skammta af bóluefnum frá sex framleiðendum að ráða. Boðaði von der Leyen að fleiri samningar yrðu gerðir á næstunni.
Pfizer hafði áður tilkynnt að fyrirtækið myndi afhenda fimmtíu milljónir skammta aukalega á öðrum fjórðungi þessa árs. Þeir skammtar fylla upp í gat vegna meintra vanefnda AstraZeneca. ESB stefndi fyrirtækinu nýlega fyrir að heiðra ekki samning sinn við sambandið um afhendingu bóluefnis.
Happy to announce that @EU_Commission has just approved a contract for guaranteed 900 million doses (+900 million options) with @BioNTech_Group @Pfizer for 2021-2023.
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) May 8, 2021
Other contracts and other vaccine technologies will follow.