„Bekkurinn hans er kominn í sóttkví og allir sem kenndu honum,“ sagði skólastjórinn.
Nemandinn mætti í skólann í síðustu viku og býst Óskar við því að allir þeir 32 nemendur sem eru í níunda bekk í skólanum fari í sóttkví auk tíu kennara.
Almannavarnir munu funda um stöðuna sem nú er uppi í Skagafirði klukkan 14 í dag og býst Óskar við því að í framhaldi af þeim fundi verði skólanum lokað.
Staðfest er nú að sex manns séu smitaðir af kórónuveirunni á Sauðárkróki og í Skagafirði og segir sveitarstjórinn þar að búast megi við því að fleiri greinist smitaðir á næstu dögum. Þá er viðbúið að fólki í sóttkví fjölgi talsvert mikið í dag.
Fjórir greindust smitaðir af veirunni á föstudag og bættust tveir í hópinn í gær. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, segir að verið sé að rannsaka betur tvö sýni til viðbótar. Alls fóru um tvö hundruð manns í sýnatöku á Sauðárkróki í gær.
„Þetta er eitthvað sem við gátum búist við miðað við fjöldann sem fór í sýnatöku í gær. Við getum alveg búist við fleiri smitum á næstu dögum,“ segir sveitarstjórinn.
Löng biðröð fólks á leið í sýnatöku er nú fyrir utan Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Þá segir Sigfús Ingi að búast megi við því að fólki í sóttkví fjölgi verulega í dag. Hann hafi ekki tölu yfir fólk í sóttkví en rakningarteymi vinni nú að því að hringja út eftir rakningu síðustu daga.
Fréttin hefur verið uppfærð.