Eftir að sýslumaður hafnaði kröfunni í byrjun febrúar skaut Bláfugl málinu til héraðsdóms sem staðfesti ákvörðun sýslumanns. Þetta kemur fram á vef FÍA.
FÍA boðaði til verkfallsaðgerða í kjölfar þess að ellefu atvinnuflugmönnum var sagt upp störfum hjá Bláfugli í desember á síðasta ári. Voru uppsagnirnar kynntar í miðri kjaradeilu og voru flugmennirnir ellefu allir meðlimir í FÍA. Í kjölfarið sagðist flugfélagið aðeins ætla að ráða „sjálfstætt starfandi flugmenn,“ sem FÍA segir lýsa gerviverktöku.
Í kjarasamningi Bláfugls við FÍA sem rann út 30. júní síðastliðinn er kveðið á um að löglegir félagar í FÍA skuli hafa forgang að þeim verkefnum sem um væri að ræða á hverjum tíma á vegum Bláfugls. Ráðning eða leiga flugmanna til Bláfugls, sem ekki væru félagar í FÍA, skyldu ekki á neinn tefja fyrir framgangi flugmanna í FÍA. Sömuleiðis eigi slíkar ráðningar ekki að leiða til uppsagna félagsmanna FÍA.
Í úrskurði Landsréttar kemur fram að sú meginregla í íslenskum vinnumarkaðsrétti að þegar kjarasamningur rennur út eða honum sagt upp fari réttindi og skyldur samningsaðila í meginatriðum áfram eftir eldri samningi á meðan enn er ósamið og verkfall ekki skollið á. Því hafi forgangsréttarákvæði félagsmanna FÍA ekki fallið úr gildi þegar kjarasamningurinn við Bláfugl rann út.
Bláfugl réði til sín tíu flugmenn sem gerviverktaka í byrjun nóvember á síðasta ári, stuttu áður en ellefu félagsmönnum FÍA var sagt upp störfum. Eftir að verkfall FÍA skall á 1. febrúar voru þeir tíu flugmenn, sem ekki eru félagar í FÍA og voru ráðnir til starfa hjá Bláfugli í nóvember, verkfallsbrjótar.
Kröfu Bláfugls þess efnis að verkfallsaðgerðir FÍA hafi ekki verið lögmætar var því vísað frá Landsrétti. Bláfugli er einnig gert að greiða FÍA kærumálskostnað.
Þá bíður FÍA þess að úrskurður Félagsdóms vegna uppsagna flugmanna Bláfugls liggi fyrir. FÍA höfðaði mál gegn Bláfugli vegna málsins og er málið einnig til skoðunar hjá Vinnumálastofnun.