Innlent

Katrín bólusett í dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er á leið í bólusetningu í Laugardalshöll í dag. 
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er á leið í bólusetningu í Laugardalshöll í dag.  Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er meðal þeirra sem fær bólusetningu fyrir Covid-19 í Laugardalshöll í dag. Í þessari viku stendur til að bólusetja tólf þúsund manns á landinu með bóluefni Pfizer.

Um fimm þúsund fá fyrri sprautuna og sjö þúsund þá síðari að því er fram kemur á vef Landlæknis. Katrín segist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa ætlað að auglýsa það í fjölmiðlum að hún væri að fara í bólusetningu en að sjálfsögðu mæti hún fyrst hún fái boð.

Sóttvarnalæknir ákvað í síðustu viku að bólusetning gegn Covid-19 yrði hér eftir framkvæmd með tilviljunarkenndum hætti innan hvers forgangshóps í stað þess að boða einstaklinga eftir aldri. Það þýðir að yngra fólk sem tilheyrir ekki forgangs hópi getur átt von á því að vera boðað fyrr í bólusetningu en áður.

Þetta er gert til að ná bólusetningu þvert á aldurshópa og ná þannig fyrr hjarðónæmi í samræmi við niðurstöðu Íslenskrar erfðagreiningar.

Nú hafa um 140 þúsund einstaklingar fengið minnst einn skammt af bóluefni hér á landi. Er það um 48% þeirra sem áætlað er að bólusetja.

Meðal valdhafa sem hafa verið bólusettir má nefna forseta Íslands, fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Þá hafa landlæknir og sóttvarnalæknir verið bólusettir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×