Innlent

Aftur opið að gosstöðvunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldgosið á Reykjanesi laðar daglega að sér fjölda göngufólks.
Eldgosið á Reykjanesi laðar daglega að sér fjölda göngufólks. Vísir/Vilhelm

Opnað hefur verið fyrir aðgang að gosstöðvunum á Reykjanesi í dag eftir að svæðinu var lokað í gær vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Gasmengun gæti borist yfir byggð á vestanverðu Suðurlandi í dag.

Spáð er norðvestan 5-10 metrum á sekúndu sem beinir gasi til suðausturs- og austurs í dag. Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mengunin leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgosins með vindinn í bakið.

Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í lægðum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Áætla má að gangan taki þrjár til fjórar klukkustundir fram og til baka fyrir meðalvant göngufólk. Gönguleiðin er stikuð og greinileg en hefur reynst mörgum erfið. Nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm og öðrum útivistarfatnaði. Á safetravel.is eru upplýsingar um stöðuna hverju sinni uppfærðar reglulega yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×