Pawel mun taka við formennsku í skipulags- og samgönguráði þar sem Sigurborg Ósk Haraldsdóttir var áður formaður. Sigurborg sagði skilið við stjórnmálin í upphafi mánaðar vegna álags og veikinda.
Alexandra skipaði þriðja sæti á lista Pírata fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og hefur gegnt stöðu varaborgarfulltrúa á kjörtímabilinu. Það sem eftir lifir kjörtímabils tekur Alexandra sæti borgarfulltrúa í stað Sigurborgar, Rannveig Ernudóttir verður fyrsti varaborgarfulltrúi Pírata í fullu starfi og Valgerður Árnadóttir verður einnig í borgarstjórnarflokknum.
Í færslu á Facebook-síðu sinni segist Alexandra ekki vera upptekin af „titlatogi eða embættum“ en embættið sé þó til marks um traust og ábyrgð sem hún ætli sér að standa undir. Hún hafi verið heilluð af starfi borgarstjórnar frá unga aldri, allt frá því að hún heimsótti ömmu sína sem starfaði í móttöku ráðhússins.
„Ég hef örugglega verið eina tíu ára barnið sem bað um að fá að koma og horfa á borgarstjórnarfund, og það blundaði alltaf í mér að þetta væri eitthvað mikilvægt. Eitthvað sem þyrfti að gera vel og af heilindum og eitthvað sem ég yrði stolt af ef mér gæfist tækifæri til. Nú hefur mér gefist þetta tækifæri og ég lofa ykkur og barninu sem ég var að ég mun sinna starfinu vel og af heilindum, fyrir hönd íbúa borgarinnar.“