Fyrr í vikunni höfðu þingmennirnir vikið Liz Cheney úr stöðunni, vegna andstöðu hennar við Donald Trump, fyrrverandi forseta, og annarra mála sem snúa einnig að Trump.
Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar sögðu leiðtogar flokksins að nú væru meðlimir þingflokksins sameinaðir í þeim tilgangi að standa í hárinu á Joe Biden, forseta, og stöðva „sósíalisk stefnumál“ hans og Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar.
Þó er ljóst að margir íhaldssamari meðlimir þingflokksins eru ekki sáttir við tilnefningu Stefanik og þá sérstaklega vegna þess að hún þykir ekki nægilega íhaldssöm.
Stefanik settist fyrst á þing árið 2015 og þótti hún ekki vera róttækur Repúblikani. Í upphafi forsetatíðar Trumps var hún til að mynda andvíg múslimabanninu svokallaða og greiddi atkvæði gegn viðleitni Trumps til að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Hefur staðið þétt við Trump
Hún kemur þó úr kjördæmi í New York sem Trump vann bæði árið 2016 og 2020 og hefur afstaða hennar gagnvart forsetanum fyrrverandi breyst verulega. Á undanförnum árum hefur hún staðið þétt við bakið á honum og fékk stórt hlutverk í vörn hans þegar hann var ákærður fyrir embættisbrot í fyrra skiptið.
Sjá einnig: Vill embætti Cheney og fylkja Repúblikönum saman um Trump
Samtök íhaldsmanna sem fylgjast náið með því hvernig þingmenn greiða atkvæði hafa til að mynda gefið Chip Roy mjög háar einkunnir. Það hafa samtökin ekki gert við Stefanik.
Heratige Action for America gefur Roy til að mynda 98 prósent en Stefanik einungis 48 prósent. Það nær yfir alla veru þeirra á þingi. Þegar bara er litið til þessa þings sem nú er yfirstandandi fær Stefanik 84 prósent og er það til marks um breytingu hennar að undanförnu.
American Conservative Union gefur Roy 94,6 prósent og Stefanik 43,6 prsóent.
AP fréttaveitan segir einnig gremju innan þingflokksins vegna taks Trumps á flokknum, sem einhverjir séu ósáttir við. Ólíklegt sé að deilum þingmanna Repúblikanaflokksins ljúki með þessari atkvæðagreiðslu.
Þá segir fréttaveitan að Stefanik hafi sagt öðrum þingmönnum að hún ætlaði ekki að sinna stöðunni lengur en út næsta ár.