Þrátt fyrir skúraveður á suðvesturhorni landsins er enn hætta á gróðureldum og hættustig enn í gildi frá Breiðafirði að Eyjafjöllum, að Reykjanesi undanskildu.
Í tilkynningu frá almannavörnum segir að fram undan séu norðaustanáttir með áframhaldandi þurrkum.
Eins og áður er meðferð opins elds bönnuð á þeim svæðum sem um ræðir.
Bann þetta tekur gildi frá og með deginum í dag (14.5.2021) og tekur til þess landsvæðis sem hættustigið nær yfir. Bannið gildir þar til tilkynning um afléttingu er send út. Brot varða sektum.
Almenningur og sumarhúsaeigendur á skilgreindum svæðum eru hvattir til að:
- Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
- Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill
- Kanna flóttaleiðir við sumarhús
- Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
- Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
- Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
- Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er
Hægt er að kynna sér betur hættur vegna gróðurelda á Gróðureldar.is og vef almannavarna.
Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.