Innlent

Ekkert rými fyrir kynferðislegt ofbeldi í samfélaginu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Katrín segir að rótin að vandanum sé viðhorf og menning. 
Katrín segir að rótin að vandanum sé viðhorf og menning.  Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra vonar að sögur sem hafa sprottið upp í tengslum við metoo byltinguna muni stuðla að raunverulegum samfélagsbreytingum. Rótin að vandanum sé viðhorf og menning og því þurfi að auka fræðslu og umræðu. Hún kynnti í dag aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi.

Fjölmargar konur hafa stigið fram síðustu daga og greint frá kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem þær hafa þurft að þola. Málefnið var til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem forsætisráðherra fór yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á kjörtímabilinu. Má þar til að mynda nefna lög um kynferðislega friðhelgi, frumvarp um réttarbætur fyrir brotaþola ofbeldis, efling löggæslu og aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. 

„Þetta er auðvitað stóra verkefnið, að breyta viðhorfi og menningu því það skiptir miklu máli að allar þessar sögur og raddir sem við höfum heyrt, bæði í fyrri bylgjum og núna, að þær verði til þess að það verði raunverulegar samfélagsbreytingar,” segir Katrín.

Þá er fyrirhugað að bæta fræðslu í skólum landsins en Katrín átti samtal við formann Sambands íslenskra sveitarfélaga um það í morgun.

„Við þurfum umræðu og við þurfum að tryggja það að við séum hér með samfélag þar sem öllum líður vel og allir geti þrifist. Í slíku samfélagi er ekkert rými fyrir kynbundið og kynferðislegt áreiti.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×