Erlent

Gærdagurinn sá mannskæðasti til þessa

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Manni bjargað úr rústum fjölbýlishúss á Gaza.
Manni bjargað úr rústum fjölbýlishúss á Gaza. AP/Khalil Hamra

Leiðtogar Palestínumanna á Gasa-svæðinu segja að gærdagurinn hafi verið sá mannskæðasti til þessa eftir að Ísraelar hófu árásir á svæðið fyrir um viku. Fullyrt er að fjörutíu og tvö hafi látið lífið í árásum Ísraelshers, þar á meðal voru sextán konur og tíu börn.

197 hafa nú dáið í árásum hersins á svæðið og eru fimmtíu og átta börn þar á meðal. Auk þess eru tæplega 1.300 manns sárir, að sögn heilbrigðisyfivalda á svæðinu sem stjórnað er af Hamas-samtökunum. 

Árásirnar í gær hófust rétt eftir miðnætti þegar ráðist var á fjölfarna götu á svæðinu sem varð til þess að þrjár byggingar hrundu til grunna. Hamas-liðar svöruðu með eldflaugaskothríð og segja Ísraelar að um þrjúþúsund eldflaugum hafi nú verið skotið á Gaza frá því árásirnar hófust fyrir um viku. 

Milljónir Ísraela flúðu í loftvarnabyrgi sem eru víða í landinu en á Gaza er engu slíku til að dreifa og lítið um örugg svæði í þessu þéttbýla samfélagi, þar sem rúmar tvær milljónir búa á svæði sem er mun minna en höfuðborgarsvæðið hér á landi.

Í morgun héldu árásirnar síðan áfram og virðist sem enn hafi verið bætt í, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um málið. Árásirnar í morgun stóðu nær látlaust í tíu múnútur og segja vitni að þær hafi staðið lengur og náð yfir stærra svæði en áður. 

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraela sagði enda í sjónvarpsávarpi í gær að ekkert hlé yrði gert á árásunum sem muni standa yfir af fullum krafti í langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×