Skoðun

Orkan úr óþefnum!

Daði Geir Samúelsson skrifar

Hver kannast ekki við að finna stingandi skítalykt læðast að vitum manns sem veldur oft mikilli ónotatilfinningu og jafnvel ógleði. Held að flestir kannist nú við það ef lyktarskynið er í lagi. En í hvert skipti sem ég finn þessa lykt þá hugsa ég: „Af hverju virkjum við ekki þessa orku?“ Þessari lykt fylgir oft mjög orkumikil gastegund sem kallast metan og metan má nýta sem orkugjafa. Þess skal þó geta að metangasið sjálft er lyktarlaust og myndast við rotnun lífrænna leyfa við loftfirrtar aðstæður, en er ansi oft fylgifiskur þar sem skítalykt er að finna.

Með því að safna saman metani sem myndast víðs vegar í okkar samfélagi, frá sorphaugum, rotþróm, fjósum, fjárhúsum, svínabúum og fleiri stöðum mætti búa til verðmætan orkugjafa fyrir Ísland. Hægt er að nýta það til að keyra áfram vörubíla, rútur og auðvitað heimilisbílinn. Ekki nóg með að vera kominn með innlendan orkugjafa með því að fanga metanið heldur erum við að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Metan er nefnilega mjög skaðleg gróðurhúsalofttegund og er talin vera um 21 sinnum skaðlegri heldur en sameind af koltvísýringi.

Með því að brenna metan brotnar það niður í minna skaðlegar gróðurhúsalofttegundir. Með því að fanga metanið og nota sem eldsneyti á vélaflota landsins verður Ísland sjálfbærara um eldsneyti og dregur úr gróðurhúsaáhrifum. Ef ekkert er gert flæðir metanið áfram út í andrúmsloftið og við verðum af þessum orkugjafa og umhverfið tapar. Metan er að myndast um allt land þannig að það myndi líka styðja við að geta nálgast þennan orkugjafa víðs vegar um landið sem gerði það raunhæft að metanvæða hluta af vélaflota landsins.

Ungt Framsóknarfólk samþykkti á sambandsþingi sínu haustið 2020 ályktun um að leggja ætti áherslu á að safna metani og nýta sem orkugjafa þjóðinni til heilla.

Næst þegar þú finnur skítalykt hugsaðu; þarna er óbeisluð orka sem við ættum að nýta til að gera okkar samfélag sjálfbærara og umhverfisvænna.

Höfundur er frambjóðandi í 2. - 4. sæti í prófkjöri Framsóknar í Suðurkjördæmi og í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×