Erlent

Mann­leg mis­tök á­stæða þess að ís­björn í Ber­lín reyndist af­kvæmi syst­kina

Atli Ísleifsson skrifar
Mæðginin Tonya og Hertha í dýragarðinum í Berlín.
Mæðginin Tonya og Hertha í dýragarðinum í Berlín. Getty/Kira Hofmann

Forsvarsmenn dýragarðsins í Berlín í Þýskalandi hafa greint frá því að ísbjarnarhúnninn Hertha sé í raun afkvæmi systkina. Segja þeir að ónákvæmni í skjölum sem fylgdu innfluttum ísbjörnum frá Rússlandi til garðsins skýri mistökin.

DW segir frá því að húnninn hafi komið í heiminn árið 2018. Er hann afkvæmi birnunnar Tonyu, sem býr dýragarðinum, og karldýrsins Volodya, sem hefst við í garði í Hollandi. Voru þau kynnt fyrir hvort öðru og látin makast.

Dýragarðurinn greindi hins vegar frá því í gær að í ljós hafi komið að Tonya og Vlodya væru í raun systkini. Hertha, sem nefndur er í höfuðið á einu fótboltaliði Berlínarborgar, er því afsprengi sifjaspells.

Volodya og Tonya eiga bæði rætur að rekja til sömu ísbjarnaræktunar í dýragarði í rússnesku höfuðborginni Moskvu. Líffræðingurinn Marina Galeshchuk tók hins vegar eftir því á síðasta ári að eitthvað stemmdi ekki í þeim skjölum sem fylgdu Tonyu.

Lífsýnarannsókn leiddi í ljós að svo virðist sem að Tonya og annað kvendýr, sem kom í heiminn á svipuðum tíma, hafi víxlast á ræktunarstöðinni á sínum tíma.

Mannleg mistök

Í yfirlýsingu frá dýragarðinum er málið allt harmað. „Ef við hefðum vitað um tengsl Tonyu og Volodya hefðum við að sjálfsögðu ekki mælt með æxlun. Þetta voru mistök.“

Andreas Knieriem, forstjóri Berlínardýragarðsins, segir að um mannleg mistök að ræða, en að þau beri engan kala í garð Rússanna. Starfsmenn dýragarðsins í Moskvu, þar sem ræktunin fer fram, hafi aðstoðað við rannsóknina og haft allt uppi á borðum. Þetta séu hins vegar alvarleg mistök og bakslag fyrir evrópsku ísbjarnaræktunaráætlunina.

Sérfræðingar telja að heilsa Herthu ætti ekki að vera sérstaklega í hættu vegna tengsla foreldra sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×