Sport

Tvöfalt fleiri áhorfendur leyfðir á þriðjudag

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn KR mega vera fleiri en áður þegar þeir fá Valsmenn í heimsókn í fjórða leik einvígis liðanna í Dominos-deild karla. Þegar liðin mætast á Hlíðarenda á sunnudag, í þriðja leik, verða hins vegar enn aðeins 150 áhorfendur leyfðir í sóttvarnahólfi.
Stuðningsmenn KR mega vera fleiri en áður þegar þeir fá Valsmenn í heimsókn í fjórða leik einvígis liðanna í Dominos-deild karla. Þegar liðin mætast á Hlíðarenda á sunnudag, í þriðja leik, verða hins vegar enn aðeins 150 áhorfendur leyfðir í sóttvarnahólfi. vísir/bára

Frá og með næsta þriðjudegi mega 300 áhorfendur vera í hverju sóttvarnahólfi, í stað 150 áður, á íþróttakappleikjum á Íslandi.

Þar með tvöfaldast sá áhorfendafjöldi sem leyfður er á leikjum og ef til að mynda er hægt að útbúa tvö sóttvarnahólf geta 600 manns mætt. Börn fædd árið 2015 og síðar teljast ekki með, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.

Þetta kemur sér vel fyrir íþróttafélögin nú þegar úrslitakeppni er til að mynda hafin eða að hefjast í körfubolta og handbolta, og fótboltinn farinn að rúlla um allt land.

Grímuskylda mun áfram gilda á íþróttaviðburðum og gilda sömu reglur um þá og aðra viðburði þar sem áhorfendur sitja í númeruðum sætum. Samkvæmt reglugerðinni er veitingasala heimil í hléi á leikjum.

Reglurnar taka gildi á þriðjudag og eiga að gilda til 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×