Stjórnarandstæðingurinn Roman Protasevich var um borð í farþegavél Ryanair í gær, sem þvinguð var til lendingar í Minsk rétt áður en hún átti að lenda í Litháen. Málið hefur vakið mikla reiði meðal leiðtoga í Evrópu; Bretar kölluðu í dag sendiherra sinn heim frá Hvíta Rússlandi og bönnuðu allt flug breskra flugfélaga í lofthelgi landsins. Þá hafa stjórnvöld í Litháen ráðlagt borgurum sínum að yfirgefa Hvíta-Rússland.
Skýringar Hvít-Rússa standist enga skoðun
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands, í samráði við samgönguráðherra, upplýsti flugrekendur um ástandið í dag. Málið hefur þó ekki bein áhrif á flug Icelandair.
„Þessi atburðarás er náttúrulega með slíkum ólíkindum að það er ótrúlegt að fylgjast með þessu og þessar skýringar sem stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi gefa standast enga skoðun, það er augljóst að það er verið að senda illa dulbúin skilaboð til aðila að ef þeir gagnrýni Lukashenko [forseta Hvíta-Rússlands] hafi þeir verra af.“
Þannig að þú lítur á þetta sem aðför að málfrelsi?
„Það er enginn vafi. Þetta er aðför að málfrelsi og mannréttindum.“
Munt þú eða stjórnvöld hér hafa beint samband við stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi?
„Finnski utanríkisráðherrann hefur þegar talað við kollega sinn í Hvíta-Rússlandi og við vinnum þessi mál alltaf þétt með okkar nánustu bandalagsríkjum, sérstaklega Norðurlöndunum þannig að við sýnum samstöðu með þeim í þessari stöðu,“ segir Guðlaugur.
Munuð þið beita ykkur með einhverjum öðrum hætti?
„Þetta er unnið með okkar bandalagsríkjum, það er eina leiðin til að ná árangri, að sýna samstöðu við aðstæður sem þessar.“
Krafist verði að stjórnarandstæðingum sem fangelsaðir hafa verið í Hvíta-Rússlandi verði sleppt. Fundað sé vegna málsins hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.
„Síðan mun koma í ljós hvernig alþjóðasamfélagið bregst við þessu, en það er ljóst að það verða viðbrögð,“ segir Guðlaugur.