Viðskipti innlent

Þrjár nýjar Boeing Max bætast í flota Icelandair

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 737 Max þotur Icelandair eru orðnar níu talsins með vélunum sem bætast við í þessari viku.
Boeing 737 Max þotur Icelandair eru orðnar níu talsins með vélunum sem bætast við í þessari viku. Vilhelm Gunnarsson

Þrjá nýjar Boeing 737 Max þotur bætast í flota Icelandair í þessari viku. Tvær þeirra komu til Keflavíkurflugvallar í nótt frá Boeing-verksmiðjunum í Seattle og sú þriðja er áætluð til landsins á næstu dögum.

„Þessar þrjár bætast við þær sex sem við höfum þegar tekið við frá Boeing,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Eftir þessar afhendingar samanstendur 737 Max-floti Icelandair af níu vélum. Sex eru af gerðinni Max 8, með 160 sætum, en þrjár af gerðinni Max 9, með 178 sætum.

Framundan er frekari vinna við nýju vélarnar í flugskýlum Icelandair á Keflavíkurflugvelli áður en þær fara í farþegaflug en félagið sér sjálft um að innrétta þær, þar á meðal að setja í þær flugsæti og skemmtikerfi.

Þoturnar sem komu í nótt voru annars vegar TF-ICP, sem er Max 8, og hefur hún hlotið nafnið Landmannalaugar. Hin vélin er TF-ICC, sem er Max 9, og hefur hún fengið nafnið Kirkjufell. Þriðja vélin, TF-ICB, sem er Max 9, verður afhent Icelandair í Seattle í dag og er væntanleg til landsins í vikunni. Hún hefur fengið nafnið Langjökull.

Icelandair samdi upphaflega um kaup á sextán Max-vélum árið 2013, en fækkaði þeim niður í tólf með endursamningum við Boeing í fyrra vegna kyrrsetningar vélanna. Gert er ráð fyrir að þrjár þotur verði afhentar á næsta ári en þær fyrstu voru teknar í notkun vorið 2018.

Hér má sjá þegar Icelandair hóf að ferja Max-þoturnar aftur til Íslands frá Spáni í febrúar eftir nærri tveggja ára kyrrsetningu:


Tengdar fréttir

Boeing Max tekst á loft í fyrsta innanlandsfluginu

Óvenju stór flugvél sinnti innanlandsfluginu nú síðdegis, 160 sæta þota af gerðinni Boeing 737 MAX. Þotan var fengin til að hlaupa í skarðið fyrir Bombardier Q400 vél, sem er í viðhaldi, en einnig til að létta á álagi vegna hvítasunnuhelgarinnar.

Fyrsta MAX 9 þotan flaug yfir Reykjavík

TF-ICA, fyrsta 737 MAX 9 þota Icelandair, kom til Íslands í dag. Vélin flaug hring yfir Reykjavík áður en hún lenti á Keflavíkurflugvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×