Fótbolti

Conte að hætta hjá Inter nokkrum vikum eftir að hafa gert liðið að meisturum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Conte með ítalska meistarabikarinn.
Antonio Conte með ítalska meistarabikarinn. getty/Claudio Villa

Antonio Conte og Inter hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum hjá félaginu.

Fótboltavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá þessu í dag. Conte er ósáttur við forráðamenn Inter sem hafa tjáð honum að félagið þurfi að fara í niðurskur, selja leikmenn og lækka launakostnað.

Conte er nýbúinn að gera Inter að Ítalíumeisturum eftir ellefu ára bið. Inter hafði mikla yfirburði í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur og fékk tólf stigum meira en liðið í 2. sæti, AC Milan.

Hinn 51 árs Conte tók við Inter sumarið 2019. Á fyrra tímabilinu undir hans stjórn lenti Inter í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og komst í úrslit Evrópudeildarinnar þar sem liðið tapaði fyrir Sevilla.

Frekar að en slaka á vildi Conte gera enn betur með Inter, sérstaklega í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið hefur valdið vonbrigðum undanfarin tvö tímabil. Fréttirnar um væntanlegan niðurskurð hjá Inter mæltust því ekki vel fyrir hjá honum.

Conte hefur meðal annars verið orðaður við Real Madrid og Tottenham. Síðarnefnda liðið er stjóralaust og óvíst er hvort Zinedine Zidane heldur áfram með Madrídarliðið.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×