Yfirmenn á Hagstofunni veittu starfsmönnunum ekki skriflega áminningu fyrir uppsögn eins og þarf lögum samkvæmt um opinbera starfsmenn.
Dómur var kveðinn upp í Landsrétti í dag sem í raun staðfesti dóm í héraði árið 2019 en hækkaði bæturnar nokkuð. Starfsmönnunum höfðu verið dæmdar tæpar fjórar milljónir í skaðabætur í héraði og 500 þúsund í miskabætur.
Í rökstuðningi stofnunarinnar fyrir uppsögn starfsmannanna var vísað til skipulagsbreytinga hjá stofnuninni. Þó var aðallega bent á slaka frammistöðu starfsmannanna í starfi og að þeir hefðu ekki náð að bæta hæfni sína eins og til hefði verið ætlast.
Landsrétti þótti ljóst af gögnum málsins að ræða að uppsögnin hefði að verulegu leyti verið tengd starfsmönnunum sjálfum og þeirra frammistöðu. Ekki hafði verið sýnt fram á að uppsagnirnar væru skipulagslegs eðlis. Þar sem uppsögnin var ekki framkvæmd samkvæmt reglum, sem kveða á um skriflega áminningu í starfi fyrir uppsögn, var uppsögnin ólögmæt.
Voru sex milljónir króna í skaðabætur og 750 þúsund krónur í miskabætur dæmdar hvorum starfsmanni fyrir sig auk dráttarvaxta. Um var að ræða tvö dómsmál sem flutt voru samhliða vegna þess hve áþekkir málavextir voru.